Fréttir

Áfangi í ljóðlist

Ljóðlistaráfangi var kenndur í MTR í fyrsta sinn á haustönninni. Kennari var Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands á Siglufirði. Í áfanganum var farið í gegn um sögu íslenskrar ljóðlistar og fræðst um strauma og stefnur frá landnámsöld til okkar tíma. Nemendur kynntust grunnreglum í íslenskri bragfræði og spreyttu sig á að setja saman vísur á réttan hátt. Árangurinn af þeim æfingum var misjafn og gekk mörgum betur að semja ljóð sem ekki eru jafn föst í forminu. Einnig settu nemendur saman ljóð í anda ólíkra stefna sem kynntar voru og notuðu ýmis stílbrögð, svo sem persónugervingar, viðlíkingar og myndhverfingar. Hægt er að kynna sér afraksturinn á sýningu á verkum nemenda sem er opin á skólatíma fram yfir útskrift laugardaginn 16. desember, - en hér eru tvö sýnishorn:
Lesa meira

Glæsileg sýning

Mikil fjölbreytni einkennir sýningu á verkum nemenda á haustönninni. Nýi salurinn Hrafnavogar gerir að verkum að rýmra er bæði um verkin og gestina á sýningunni en verið hefur. Málaralist og listljósmyndun er áberandi að þessu sinni en einnig gefur að líta þrívíð verk og verk úr endurunnu efni, úr svokölluðum úrgangslistaráfanga. Heyra má tónlist sem nemendur hafa samið og flytja sjálfir. Verkefni úr íslenskuáföngum eru áberandi og má nefna myndbönd unnin út frá Gylfaginningu og myndskreyttar frásagnir úr áfanga um goðsögur, ævintýri og fantasíur. Þar var lokaverkið að skrifa fantasíusögu eða gera handrit að kvikmynd eða smíða grind að skáldsögu. Einnig eru sýnd verk nemenda í næringarfræði, spænsku, ensku og fleiri fögum. Stór hluti af verkunum eru frá fjarnemum og er það í samræmi við fjölgun þeirra. Nemendur og starfsmenn þakka gestum sem komu á sýninguna á laugardag fyrir komuna og minna á að sýningin verður opin á skólatíma fram að útskrift laugardaginn 16. Desember.
Lesa meira

Samstarf við menningarstofnanir

MTR ætlar auka samstarf við menningarstofnanir á Tröllaskaga og hefur þegar gengið frá viljayfirlýsingum um samstarf við Síldarminjasafn Íslands og Ljóðasetur Íslands á Siglufirði. Samstarfið getur falist í ýmsum þáttum en gert er ráð fyrir heimsóknum nemenda á Síldarminjasafnið og nýtingu á safnkosti og sýningarhúsum til skapandi starfa og verkefna, til dæmis í ljósmyndun og smíði eða viðgerðir á gömlum trébátum undir handleiðslu sérfræðinga. Samstarf við Ljóðasetrið getur meðal annars falist í heimsóknum nemenda og fræðslu um íslenska ljóðlist, heimsóknum ljóðskálda á vegum setursins, sérfræðiráðgjöf til kennara í MTR og námskeiðum í skapandi skrifum og ljóðlist, til dæmis í miðannarviku. Þá er vilji til að nemendur skólans fái tækifæri til að lesa upp á Ljóðasetrinu og taki þátt í ljóðakvöldum og árlegri ljóðahátíð. Áformað er að semja við fleiri menningarstofnanir um sambærilegt samstarf.
Lesa meira

Haustsýning

Undirbúninngur stendur nú sem hæst fyrir sýningu á verkum nemenda á laugardaginn kemur. Að venju verður fjölbreytt sköpun á önninni gerð sýnileg með ýmsum hætti. Margskonar myndverk verða áberandi en einnig listrænar ljósmyndir, myndbönd og fleira. Aðstaða til sýningarhalds hefur stórbatnað með tilkomu salarins Hrafnavoga og verður spennandi að sjá hvernig sköpunarverk nemenda taka sig út þar. Sýningin verður opnuð kl. 13:00 á laugardag og verður opið til kl. 16:00. Í næstu viku verður sýningin opin á skólatíma.
Lesa meira

Nemendur grunnskólans yrkja í MTR

Í rúman áratug hefur ljóðahátíðin Haustglæður farið fram í Fjallabyggð og er hún samstarfsverkefni Ljóðaseturs Íslands og Ungmennafélagsins Glóa. Ávallt hefur verið lögð áhersla á að virkja börn og ungmenni á þessari hátíð, m.a. hefur ljóðasamkeppni milli nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar verið fastur liður í dagkránni. Undanfarin ár hafa listaverk úr listaverkasafni Fjallabyggðar verið notuð sem kveikjur að ljóðum í þessari keppni. Hafa nemendur komið í fundarsal ráðhússins á Siglufirði, virt fyrir sér hin ýmsu listaverk og síðan ort út frá þeim. Þar sem eldri deild GF er nú til húsa í Ólafsfirði þótti upplagt að nemendur kæmu í MTR í þessum erindagjörðum í ár því þar er nóg af listaverkum, bæði í eigu skólans sem og verk nemenda. Nemendur 8. bekkjar riðu á vaðið í vikunni og síðan kom 10. bekkur og loks sá 9. Fengu nemendur smá leiðsögn um ljóðagerð í upphafi en síðan var hafist handa við að yrkja. Gekk það misjafnlega en afraksturinn varð nær 70 ljóð og nú bíður það dómnefndar að velja þrjú þau bestu. Frá upphafi hafa höfundar rúmlega 30 ljóða verið verðlaunaðir og hallar þar töluvert á annað kynið því 26 þessara höfunda eru stúlkur en aðeins sex strákar!
Lesa meira

Piparkökur og vöfflur

Nemendafélagið Trölli skellti í vöfflur í morgun í tilefni af yfirvofandi jólafríi, eins og formaðurinn komst að orði. Sísvangir nemendur gæddu sér á vöfflunum og höfðu vel af rjóma og sultu með. Piparkökur voru skreyttar með súkkulaði og glassúr og settu hátíðlegan blæ á samverustundina í Hrafnavogum.
Lesa meira

Ályktunartölfræði

Í áfanganum STÆR3TÁ05 fá nemendur innsýn í tölfræði sem mikið er notuð og víða. Í æfingu vikunnar söfnuðu nemendur gögnum, flokkuðu, settu fram tilgátu og notuðu kí-kvaðrat-próf til að meta hana. Meðal annars var kannað hvort vatnsdrykkja, sundferðir og kaup á skyndibita væru mismunandi milli kynja. Sett var fram svokölluð 0-tilgáta, það er að enginn munur væri á kynjum. Nemendur notuðu hentugleikaúrtak og google forms til að flokka og vinna með gögnin. Að endingu var svo skrifuð skýrsla. Niðurstöður bentu til að ekki væri munur vatnsdrykkju kynja og ekki heldur á kaupum á skyndibita. Hins vegar virðast konur duglegri að synda en karlar og væri ástæða til að kanna muninn sem fram kom nánar. Kennari í ályktunartölfræði er Unnur Hafstað.
Lesa meira

Foreldrafélag - aðalfundur

Aðalfundur Foreldrafélags MTR verður haldinn í skólanum þriðjudaginn 5. desember kl. 17:00. Markmið félagsins er að efla samstarf foreldra um mál sem varða velferð og þroska nemenda og vera vettvangur samstarfs foreldra og forráðamanna nemenda. Einnig að skapa farveg fyrir samskipti við stjórnendur skólans um málefni ólögráða nemenda og styðja heimili og skóla í að búa nemendum góð skilyrði til menntunar.
Lesa meira

Í frímínútum

"Hvað gera nemendur í frímínútum?" var rannsóknarspurning í lítilli vettvangsathugun eins nemandans í sálfræðiáfanganum SÁLF2AA05 í síðustu viku. Niðurstöður benda til þess að liðlega þriðjungur nemenda tali saman í löngu frímínútunum en tæplega fjórðungur læri og álíka hlutfall noti farsímann. Fáeinir voru í tölvunni að gera eitthvað annað en læra, fóru út af skólalóðinni eða fengu sér að borða. Tveir sváfu. Vettvangsathugunin fór fram í löngu frímínútunum, kl. 9:10-9:30 þrjá morgna í síðustu viku.
Lesa meira

Veðurhamur og viðbrögð

Nemendur eru beðnir um að meta aðstæður áður en þeir leggja af stað í skóla og hafa samráð við forráðamenn séu þeir undir lögaldri. Skólaakstur frá Dalvík og Siglufirði er ákvarðaður af bifreiðastjórum sem sem bera ábyrgð á akstrinum. Strætó frá Akureyri tekur sínar ákvarðanir. Aki þeir ekki er það tilkynnt á heimasíðu skólans þegar við fáum þær fregnir. Sé talið að veður hamli för eða sé áhættusamt, en skólabifreiðar og Strætó keyra, eru nemendur beðnir að tilkynna það á skrifstofu skólans. Nemendur stunda námið heima þá daga sem ferðaveður er ekki og hafa samband við kennara í Moodle, eða með öðrum hefðbundnum samskiptaaðferðum, gerist þess þörf. Engum skilafrestum er breytt.
Lesa meira