MTR að góðu getið

Skólinn er kominn á blað í Handbók um rannsóknir á upplýsingatækni í námi og blönduðum kennsluháttum (Handbook of Research on K-12 Online and Blended Learning). Þar kemur fram að skólinn hafi vakið athygli fyrir ný viðhorf til kennslu með víðtækri notkun upplýsingatækni og fyrir margháttað samstarf við aðra skóla, svæðisbundið og á landsvísu, en einnig fjölþjóðlegt samstarf.

Greint er frá því að MTR hafi tekist að bjóða fjölbreytt nám þrátt fyrir fáa nemendur. Lykillinn að því sé að bjóða fjarnám og búi stór hluti fjarnemanna á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir framhaldsskólar, flestir í hinum dreifðu byggðum, hafi formbundið samstarf sitt við að leysa þetta vandamál með stofnun Fjarmenntaskólans. Sumir skólarnir í samstarfinu hafi raunar ekki fengið neina fjarnema en Menntaskólinn á Egilsstöðum, MTR og tveir í viðbót hafi bætt 50-100 einstaklingum í nemendahóp sinn. Þessi fjölgun sé mjög mikilvæg fyrir skólana, bæði faglega og fjárhagslega. Upplýsingarnar sem birtar eru í Handbókinni byggjast að mestu á umfjöllun dr. Þuríðar Jóhannsdóttur í fagtímaritum um nám og kennslu.

Slóð á Handbókina http://repository.cmu.edu/etcpress/82/