Fréttir

Elfa Sif hjúkrunarfræðingur

Elfa Sif Kristjánsdóttir er frá Siglufirði. Hún útskrifaðist af félags- og hugvísindabraut MTR vorið 2015. Skömmu síðar hóf hún nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Elfa býr í dag í Ólafsfirði og starfar sem hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Fjallabyggð. Við spurðum Elfu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanámið og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Lesa meira

Listamaður mánaðarins - Kristján Jóhannsson

Ný sýning hefur nú verið sett upp í sal skólans. Er þar um að ræða upprunalegar myndir af nokkrum af þeim bókakápum sem myndlistarmaðurinn Kristján Jóhannsson vann á árunum 1985 til 1992 áður en tölvutæknin kom til sögunnar og leysti penslana af hólmi í þeirri grein. Myndirnar eru unnar með gvasslitum og akrýllitum.
Lesa meira

Fræðsla á Alþjóðlega menntadeginum

Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og stendur sem slíkur fyrir dagskrá nokkra þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum. Í gær, þann 24. janúar, var Alþjóðlegi menntadagurinn og beindi UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, kastljósinu að hatursorðræðu en menntun og kennarar hafa lykilhlutverki að gegna í að takast á við hana. Hatursorðræða hefur magnast á undanförnum árum í skjóli samfélagsmiðla og hefur oft og tíðum grafið undan samheldni samfélaga.
Lesa meira

Anna Kristín Semey málari

Anna Kristín fluttist til Ólafsfjarðar á unglingsárum. Hún útskrifaðist af myndlistasviði listabrautar MTR vorið 2017. Í kjölfarið skráði hún sig í kennaranám en fann sig ekki í því og fór út á vinnumarkaðinn. Löngunin til að læra meira blundaði samt alltaf í henni og haustið 2021 hóf hún nám í málaraiðn við Tækniskólann og útskrifaðist sem málari á dögunum. Anna Kristín býr í dag í Reykjavík og starfar sem málari hjá málningarþjónustunni 250 litir og í málningarversluninni Farver. Við spurðum Önnu Kristínu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir frekara nám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Lesa meira

Kraftmikill starfsmannahópur

Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga býr yfir ýmsum hæfileikum og er óhætt að segja að einkunnarorð skólans, Frumkvæði - Sköpun - Áræði, gildi ekki aðeins í starfi þeirra í skólanum heldur einnig í ýmsum verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur utan hans. Í starfsmannahópnum er m.a. starfandi myndlistar- og tónlistarfólk, jógakennari, ljósmyndarar, skíðakennarar, íþróttaþjálfarar og ljóðskáld, svo eitthvað sé nefnt. Einn af hinum kraftmiklu kennurum skólans er Karólína Baldvinsdóttir, sem lauk námi í fagurlistum frá Myndlistaskólanum á Akureyri og hjúkrun og kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri. Hún hefur komið að ýmsum skapandi verkefnum á Akureyri síðustu ár og m.a. verið formaður Myndlistafélagsins og meðlimur í Kaktus, sem er samfélag ungra listamanna á Akureyri og hefur staðið fyrir ýmiskonar menningarviðburðum í Listagilinu. Nýjasta verkefni Karólínu er Samlagið; sköpunarverkstæði, sem haldið er innan Gilfélagsins, í samstarfi við ýmsa myndlistarmenn, Myndlistarfélagið og Listasafnið á Akureyri. Um er að ræða um þriggja mánaða námskeið þar sem áherslan er á skapandi hugsun og framkvæmd og framsetningu verka. Fyrstu námskeiðin voru sl. haust fyrir aldursflokkana 6 - 10 ára og 11 - 16 ára og enduðu þau með sýningu í Mjólkurbúðinni í byrjun desember. Vornámskeiðin hefjast í lok janúar og þar verður Karólína í hópi listafólks sem segir börnunum til. Einnig eru uppi áform um að bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna.
Lesa meira

MTR meðal leiðandi íslenskra vinnustaða

Eitt af þeim verkfærum sem stjórnendur Menntaskólans á Tröllaskaga nota til að leiða skólann fram á við eru rauntíma mannauðsmælingar frá HR Monitor. Starfsfólk skólans svarar reglulega spurningakönnunum frá stjórnendum sem veitir því frekari tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á vinnustaðnum. Þessi svör veita stjórnendum rauntímaupplýsingar um mannauðsmál fyrirtækisins og gerir þeim kleift að bregðast skjótt við breyttum aðstæðum og auka þar með virkni starfsmanna. Spurningarnar eru 9 í hvert sinn og lúta m.a. að starfsánægju, sjálfstæði til ákvarðanatöku, stuðningi frá stjórnendum, kröfum um árangur og þróun í starfi. Á síðasta ári fékk skólinn viðurkenningu frá HR Monitor sem einn þeirra leiðandi íslenskra vinnustaða sem uppfylla ströng skilyrði til að vera útnefndur Mannauðshugsandi vinnurstaður árið 2023.
Lesa meira

Vorönn hefst 3. janúar

Við sendum öllum nær og fjær óskir um gleðilegt og farsælt nýtt ár og þökkum fyrir samstarf og samveru á liðnum árum. Nám á vorönn hefst 3. janúar, jafnt hjá staðnemum sem fjarnemum, og allir nemendur eiga að hafa fengið upplýsingar frá kennurum í tölvupósti hvernig þeir skrá sig í áfanga sína í kennslukerfinu Moodle. Í Innu sjá nemendur þá áfanga sem þeir eru skráðir í. Fjarnemar geta haft samband við Birgittu umsjónarkennara sinn, birgitta@mtr.is, ef eitthvað er óljóst. Fyrstu skil verkefna eru sunnudaginn 7. janúar. Hlökkum til að starfa með ykkur það sem eftir lifir vetrar..
Lesa meira

18 nýstúdentar settu upp hvíta kollinn

Þann 20. desember sl. brautskráðust 18 nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn, eru það mun færri en undanfarnar annir. Hafa nú alls 550 nemendur brautskráðst frá skólanum frá því hann var stofnaður árið 2010. Mikill meirihluti nemenda skólans eru fjarnemar sem búsettir eru vítt og breitt um landið og nokkrir erlendis. Útskriftarnemarnir að þessu sinni koma frá tíu stöðum á landinu og tveir þeirra búa erlendis, sextán þeirra eru fjarnemar. Aðeins fjórir nemanna sáu sér fært að vera við athöfnina en líkt og undanfarin ár var hún einnig send út á fésbókarsíðu skólans svo allir útskriftarnemar og fjölskyldur þeirra gætu notið stundarinnar. Þá var einn fyrrverandi stúdent frá MTR útskrifaður sem sjúkraliði frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra við athöfnina.
Lesa meira

Skemmtilegt Jólakvöld nemendafélagsins

Í síðustu viku var hið árlega Jólakvöld nemendafélagsins Trölla, en það er einn af stærstu viðburðum hvers árs í félagslífi nemenda. Boðið var til veislu í sal skólans og síðan tók við skemmtidagskrá. Staðnemar fjölmenntu og skólinn bauð sínu starfsfólki, hafði um helmingur hópsins tök á að þiggja það góða boð. Matseðillinn var glæsilegur, grafinn og reyktur lax í forrétt, hamborgarhryggur og hangikjöt með tilheyrandi meðlæti í aðalrétt og svo ís í eftirmat. Það fór enginn svangur frá þessu veisluborði. Skemmtidagskráin samanstóð af ýmsum spurningaleikjum og öðru fjöri og dregið var í happdrætti með veglegum vinningum. Nemendur og kennarar notuðu einnig tækifærið og stilltu sér upp fyrir framan myndavélina eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Lesa meira

Fjölmenni og fjör á opnun haustsýningar skólans

Haustsýning skólans var opnuð í dag og var mæting með allra besta móti. Ákveðið hafði verið að blása til nýrrar sóknar og gera sýninguna í skólahúsinu glæsilega úr garði. Undanfarin ár hafa verið lituð af áhrifum Covid faraldursins og sýningarhald að mestu leyti farið fram á vefnum en færri verkum stillt upp í skólanum. Nú var þessu öfugt farið og veggir skólans þaktir verkum jafnt fjarnema sem staðnema. Kenndi þar ýmissa grasa og til sýnis voru ljósmyndir, þrívíð verk og málverk nemanda af listabraut sem og skapandi verkefni nemanda af öðrum brautum. Vakin er athygli á því að valin verkefni eru einnig til sýnis á heimasíðu skólans. Ungum sýningargestum var boðið upp á að fást við jólaföndur af ýmsu tagi og taka með sér heim kerti sem steypt voru á staðnum úr kertaafgöngum, enda skólanum umhugað um endurnýtingu. Opnunardagurinn tókst eins og best verður á kosið og mun fleiri sóttu opnunina en síðustu ár. Sýningin verður opin til 20. desember á starfstíma skólans og er fólk hvatt til að líta inn og skoða afrakstur vinnu nemenda á haustönninni.
Lesa meira