Fréttir

Kynning á Evrópuverkefnum fyrir ungt fólk

Í síðustu viku fengum við góða heimsókn þegar fulltrúar Rannsóknarstöðvar Íslands, Rannís, komu í skólann. Þetta voru þær Miriam Petra Ómarsdóttir Awad og Svandís Ósk Símonardóttir sem báðar starfa sem sérfræðingar á mennta- og menningarsviði hjá Rannís. Miriam er m.a. verkefnastýra Eurodesk á Íslandi og sér um kynningar og fyrirspurnir um tækifæri fyrir ungt fólk í evrópsku samstarfi og Svandís Ósk hefur umsjón með samstarfsverkefnum í háskólahluta og æskulýðshluta Erasmus+ auk þess sem hún er hluti af kynningarteymi Landskrifstofu Erasmus+. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna fyrir nemendum og starfsfólki skólans hin ýmsu styrkhæfu verkefni sem bjóðast á vettvangi Erasmus+, hvort sem er innanlands eða utan. Má þar t.d. nefna ungmennaskipti þar sem ungt fólk kynnist lífi og menningu jafnaldra þeirra í Evrópu, þátttökuverkefni sem hvetja ungt fólk til virkni og þátttöku í samfélaginu, sjálfboðaliðastörf til að gefa af sér, efla sjálfstraust og færni og samfélagsverkefni til að hafa áhrif á nærsamfélag sitt. Funduðu þær stöllur m.a. með Idu Semey, sem er verkefnastýra erlendra verkefna við skólann, og nemendaráði skólans og sáu fulltrúar þess ýmis tækifæri í því sem þær höfðu fram að færa. Aðrir kennarar og nemendur hlustuðu einnig af athygli og ýmsar hugmyndir að verkefnum spruttu út frá umræðum sem fylgdu í kjölfar kynningarinnar. Svo er bara að sjá hvort einhverjar þeirra verði að veruleika.
Lesa meira

Patrekur Þórarinsson húsasmiður og slökkviliðsmaður

Patrekur Þórarinsson er frá Siglufirði. Hann útskrifaðist af náttúrufræðibraut og útivistarsviði íþróttabrautar MTR í desember 2016. Eftir það hefur hann sótt sér ýmsa menntun m.a. sveinspróf í húsasmíði og meirapróf og er að ljúka námi sem slökkviliðsmaður. Patrekur býr enn á Siglufirði og starfar sem smiður hjá L7 verktökum auk þess sem hann er hlutastarfandi slökkviliðsmaður í Slökkviliði Fjallabyggðar og starfsmaður í félagsmiðstöðinni Neon. Við spurðum Patrek hvernig námið í MTR hafi undirbúið hann fyrir áframhaldandi nám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Lesa meira

Fjör á nýnemadegi

Í gær var nýnemadagurinn haldinn í skólanum en þar eru nýir nemendur boðnir formlega velkomnir af þeim eldri. Stjórn nemendafélagsins Trölla skipulagði líflega dagskrá sem samanstóð af fjöri og útiveru. Fyrst var nemendum skipt upp í hópa sem fóru vítt og breitt um Ólafsfjörð í skemmtilegum ratleik. Þá tók við knattspyrnuleikur milli nýnema og þeirra eldri, sáust þar glæsilegir taktar og var hart barist. Fór svo að lokum að nýnemar höfðu nauman sigur. Þá var gefinn tími til að matast þar sem pizzuhlaðborði, í boði skólans, voru gerð góð skil. Eftir hádegi var svo komið að því að svamla um og slaka á í sundlauginni og heitu pottunum. Ljómandi góður dagur og nemendahópurinn enn samstilltari en fyrr.
Lesa meira

Fjarkar veita sérfræðiþekkingu og fá félagsskap

Með bættri tækni og hraðari nettengingum hefur fjarvinnu og fjarnámi vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum. Störf án staðsetningar eru nú í boði hjá ýmsum vinnuveitendum og þykir fýsilegur kostur þar sem því er við komið. Vinnur fólk þá annað hvort heiman að frá sér eða í sérstökum rýmum sem sett eru upp fyrir slíka fjarvinnu svo fólk geti verið í félagsskap annarra þó svo það sé ekki á vinnustaðnum. Hér í Menntaskólanum á Tröllaskaga eru nú nokkur rými þar sem fólk getur komið og unnið sína vinnu utan vinnustaðar og notið í leiðinni félagsskapar við okkar góða starfsfólk. Um þessar mundir eru tvö rými í notkun. Ólafsfirðingurinn Magnús Sveinsson, nýtir annað þeirra. Magnús er búsettur í Noregi og starfar á starfsstöð fyrirtækisins Swisslog í Osló, en fyrirtækið er með starfsstöðvar víða um heim. Starf hans felst í því að hanna lagerrými fyrir ýmis konar fyrirtæki. Hann er að koma hér annað árið í röð og verður í nokkrar vikur líkt og í fyrra. Finnst honum þetta mjög góður kostur; hefur allt sem hann þarf til að sinna vinnunni, nýtur félagsskaparins og getur ræktað samband sitt við æskustöðvarnar, fjölskyldu og vini. Hitt rýmið nýtir Anna Lind Björnsdóttir, sem er búsett á Siglufirði. Hún starfar sem verkefnastjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, SSNE, og nýtir aðstöðuna hér einn til tvo daga í viku. Með færri staðnemum og auknu fjarnámi við skólann hefur losnað um rými í skólahúsnæðinu og var ákveðið að nýta hluta af því undir aðstöðu til fjarvinnu. Þeir sem nýta þessa aðstöðu eru kallaðir Fjarkar hér innanhúss og setja svip sinn á skólabraginn. Veita innsýn í önnur störf og önnur samfélög, nær og fjær, auk þess koma með sérfræðiþekkingu sína inn í skólasamfélagið.
Lesa meira

Að nýta sér tæknina

Upplýsingatækni dreifnáms er einn af grunnáföngum skólans. Allir nemendur skólans sitja þann áfanga og reynt er að koma honum sem fyrst inn á námsferilinn. Í þessum áfanga er lögð áhersla á að kenna undirstöðuatriði í notkun á tölvum og upplýsingamennt og að nemendur læri að skipuleggja sig í námi. Leitast er við að nýta frían hugbúnað og þann sem fyrir er í tölvunni. Lögð er áhersla á hugbúnað í skýinu og að nemendur þjálfist í notkun ýmissa forrita. Þessa þekkingu nýta nemendur sér svo við að vinna verkefni í hinum ýmsu námsgreinum.
Lesa meira

Margt á döfinni hjá nýju nemendaráði

Á dögunum var óskað eftir framboðum í nemendaráð skólans, er það nú fullskipað og hefur þegar tekið til starfa að halda og skipuleggja fyrstu viðburði vetrarins. Undanfarin ár hefur ráðið verið skipað 6 fulltrúum en að þessu sinni var ákveðið að þeir yrðu 7 þar sem sitjandi formaður, Lárus Ingi Baldursson, útskrifast um áramót. Aðrir í ráðinu frá síðustu önn eru Björn Ægir Auðunsson, Elísabet Ásgerður Heimisdóttir og Erna Magnea Elísa Jökulsdóttir og í hópinn bætast nýnemarnir Hanna Valdís Hólmarsdóttir, Ingólfur Gylfi Guðjónsson og Víkingur Ólfjörð Daníelsson. Sem fyrr var hugað sérstaklega að kynjahlutfalli við val í ráðið.
Lesa meira

Matreiðsla og næring

Á starfsbraut skólans eru kenndir margir áhugaverðir áfangar í hinum ýmsu fögum. Meðal annars eru nokkrir áfangar sem bera heitið Tilveran og hafa þeir hver sitt undirheiti. Í þessum áföngum er fengist við ýmis verkefni hins daglega lífs. Undirheiti áfangans í Tilveru á þessari önn er matreiðsla og næring og eins og nafnið gefur til kynna fá nemendur tilsögn í grunnþáttum matreiðslu og fræðast um mikilvægi góðrar næringar. Einnig er farið í notkun á helstu tækjum og smááhöldum í eldhúsi, meðferð hráefna, vinnuskipulag og mikilvægi hreinlætis auk þess sem nemendur fá þjálfun í að leggja á borð og ganga frá eftir eldamennsku og bakstur. Áfanginn er bæði verklegur og bóklegur. Í fyrstu vikunni ræddu nemendur hvað þeir vildu matreiða og baka á önninni og fengu fræðslu um mikilvægi fjölbreyttrar fæðu. Sérstaklega var fjallað um ávexti og grænmeti sem gefa okkur mikið af trefjum, vítamínum og öðrum fjörefnum. Í dag var svo komið að verklega þættinum. Nemendur byrjuðu á því að fara í verslunarferð með kennara sínum og kaupa inn gott úrval ávaxta og síðan að skera niður og raða á diska eftir kúnstarinnar reglum. Nemendur starfsbrautar smökkuðu svo hinar ýmsu tegundir og buðu einnig öðrum nemendum og starfsfólki skólans að bragða á við mikla ánægju viðstaddra. Kennarar áfangans á þessari önn eru Guðrún Þorvaldsdóttir og Þórarinn Hannesson.
Lesa meira

Nýir áfangar á hverri önn

Menntaskólinn á Tröllaskaga hóf störf haustið 2010. Skólinn býður upp á metnaðarfullt nám með fjölbreyttum kennsluháttum sem miða að virkni nemenda og sjálfstæði. Einkunnarorð skólans eru: Frumkvæði - Sköpun - Áræði og endurspeglast þau í námsframboði, kennsluháttum, námsaðferðum, skipulagi og viðfangsefnum. Skólinn starfar eftir framhaldsskólalögum frá 2008 en mikilvægasta nýjungin í þeim, frá fyrri lögum, er að ábyrgðin á námskrárgerðinni færðist yfir til skólanna og þeim gefið frjálst að skipuleggja það nám sem þeir vilja bjóða upp á.
Lesa meira

Fyrsti nemendadagurinn á nýrri önn

Í dag mættu nemendur að nýju í skólann eftir gott sumarleyfi. Urðu þar fagnaðarfundir og nýnemar voru greinilega spenntir að stíga næstu skref á námsferlinum. Lára Stefánsdóttir skólameistari bauð nemendur velkomna, hvatti þá til dáða í náminu á komandi vikum og lagði áherslu á að námið væri á þeirra ábyrgð. Fulltrúar nemendaráðs kynntu stuttlega starfsemi ráðsins, óskuðu eftir hugmyndum til að gera gott félagslíf betra og áhugasömum fulltrúum í ráðið; það væru tvö sæti laus. Að venju fór fyrsti skóladagurinn annars í að koma hlutunum af stað. Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi, kynnti nýnemum helstu kerfi skólans með aðstoð nokkurra kennara. Var þar um að ræða kennslukerfið Moodle og Innu þar sem haldið er utan um mætingu nemenda, stundatöflur, námsferil og einkunnir. Auk þess fræddust nýnemar um vinnulagið í skólanum s.s. vikulotur, símat, fjölbreytt skil verkefna og ábyrgð nemenda á eigin námi. Að lokinni kynningu skráðu nýnemar sig inn í þá áfanga sem þeir munu sitja á önninni. Reyndari nemendur skoðuðu stundatöflur sínar, spjölluðu við starfsfólk skólans og athuguðu hvaða verkefni bíða þeirra þegar skólastarfið fer af stað af fullum krafti á mánudaginn.
Lesa meira

Allir hafi rödd

Undanfarna tvo daga hefur starfsfólk skólans setið námskeið um samræðuaðferð sem kallast Timeout. Leiðbeinandi var Laura Arikku frá Timeout Foundation í Finnlandi og kom hún sem sérfræðingur í þessum efnum á vegum Erasmus+. Henni kynntust fulltrúar MTR í Nordplus verkefni sem þeir sóttu í Helsinki þar sem umfjöllunarefnið var virk borgaravitund. Timeout hefur gefið góða raun í skólakerfinu í Finnlandi sem og hjá ýmsum félagasamtökum og fleiri aðilum þar í landi. Aðferðin er hagnýtt verkfæri til að skipuleggja og skapa opna umræðu þar sem allar raddir fá að heyrast. Leiðbeinandi stýrir umræðunum og styðst við ákveðnar grunnreglur þannig að allir fái að segja sína skoðun eða lýsa sinni reynslu. Timeout býður upp á tækifæri til að staldra við og íhuga hlutina og verkfærin sem fylgja hjálpa til við að virkja þá sem taka venjulega ekki þátt í umræðum. Starfsfólk skólans sá ýmis tækifæri í þessari aðferð og hlakkar til að nota hana á næstu mánuðum í skólastarfinu, bæði með nemendum sem og í starfsmannahópnum.
Lesa meira