Fréttir

Góður liðsauki

Þegar Menntaskólinn á Tröllaskaga var stofnaður haustið 2010 voru starfsmenn 9 og nemendur voru 72 á fyrstu önn. Þó ekki séu nema rúm 13 ár frá þeim merku tímamótum að fá framhaldsskóla í sveitarfélagið þá hefur mikið vatn runnið til sjávar frá fyrstu dögunum. Skólastarfið hefur þróast ár frá ári og fjöldi starfsfólks og nemenda vaxið hröðum skrefum. Nemendur eru nú rúmlega 500 og starfsmannahópurinn telur 28 manns. Útkoma úr valinu á Stofnun ársins meðal ríkisstofnanna sýnir að MTR er sérlega góður vinnustaður því þar hefur skólinn verið í efstu sætum undanfarin 9 ár. Í könnuninni sem liggur til grundvallar valinu er spurt um starfsánægju, starfsaðstæður og kjör hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og sjálfseignarstofnunum. Niðurstöður sýna að starfsandi er mjög góður og starfsmannavelta hefur verið með minnsta móti. Einhverjar breytingar verða þó á hverju skólaári og í upphafi þessa skólaárs barst okkur góður liðsauki; nýr kennari, sem leysir af annan í námsleyfi, og nýr fjármálastjóri. Inga Þórunn Waage er nýr kennari við skólann og kennir hún ensku og mannkynssögu. Hún lauk kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri vorið 2022 og var í æfingakennslu hjá okkur í MTR í námi sínu. Inga Þórunn er fædd í Reykjavík og tók stúdentspróf af nýmálabraut frá Menntaskólann í Reykjavík. Eftir það lá leiðin til Ástralíu þar sem hún sótti sér diplómu í ljósmyndun áður en hélt aftur á heimaslóðir og lauk BA í ensku við Háskóla Íslands. Eftir BA námið flutti hún til Berlínar og nam enskar bókmenntir, menningu og miðlun við Humboldt Univerität zu Berlin. Eftir að meistaranámi lauk vann hún í Berlín og Barselóna í nokkur ár við þýðingar, kennslu og textasmíðar. Færði sig svo um set og hóf störf hjá hugbúnaðarfyrirtækinu GODO í Reykjavík og vann þar til 2019. Þá söðlaði hún enn um og flutti norður á Siglufjörð með fjölskylduna og hóf störf hjá Síldarminjasafni Íslands þar sem hún vann við varðveislu og miðlun þar til hún hóf störf hjá okkur í haust. Nýr fjármálastjóri er Elsa Guðrún Jónsdóttir sem er fædd og uppalin á Ólafsfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá skíðamenntaskólanum í Geilo í Noregi. Þá lá leiðin í Háskólann á Bifröst þar sem hún lauk BS í viðskiptalögfræði og meistaraprófi í lögfræði. Síðan hefur hún bætt við sig vottun frá Háskólanum í Reykjavík sem fjármálaráðgjafi og tekið styttra nám um mannlega millistjórnandann. Menntunarþörfin er enn til staðar og er hún nú skráð í nám í menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Elsa starfaði síðustu ár sem fjármálaráðgjafi og útibússtjóri í Arion banka og öðlaðist þar mikla reynslu af skjalavörslu og öðrum verkefnum sem nýtast henni vel í nýju starfi. Elsa Guðrún er margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu og var fyrsta konan sem keppti á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd í þeirri grein.
Lesa meira

Nýnemar tóku þátt í Forvarnardeginum

Menntaskólinn á Tröllaskaga er heilsueflandi framhaldsskóli og leitar ýmissa leiða til að huga að jafnt andlegri- sem líkamlegri heilsu nemenda sem starfsfólks. Fastur liður í forvarnarstarfi skólans er þátttaka í Forvarnardeginum en þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Að Forvarnardeginum standa embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátarnir, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greining, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóli, auk embættis landlæknis sem fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins. Í tilefni dagsins fengu nýnemar í MTR kynningu á góðum árangri í forvarnarmálum á Íslandi sem lýsir sér m.a. í minnkandi áfengisneyslu og reykingum meðal ungs fólks. Nýjar áskoranir, s.s. neysla orkudrykkja, notkun nikótínpúða og of lítill svefn ungmenna, voru einnig ræddar. Auk þess var fjallað um verndandi þætti gegn áhættuhegðun. Þeir þættir eru samvera með fjölskyldu, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að leyfa heilanum að þroskast. Nýnemarnir tóku að því loknu þátt í hópavinnu og umræðum um þessi efni og skráðu og skiluðu inn hugmyndum sínum á vef forvarnardagsins. Svörum allra skóla sem taka þátt er safnað þar saman til að finna samnefnara í umræðum nýnema og eru niðurstöðurnar nýttar í áframhaldandi forvarnarvinnu. Á síðunni https://www.forvarnardagur.is/ er hægt að finna ýmis konar fræðslu og upplýsingar sem foreldrar eru hvattir til að kynna sér.
Lesa meira

Atli Tómasson er listamaður mánaðarins

Listamaður mánaðarins er fyrrverandi nemandi skólans, Atli Tómasson. Í miðrými skólans, Hrafnavogum, eru nú til sýnis ýmis portrettverk sem hann hefur málað að undanförnu. Hugmyndin á bak við verkin á rætur sínar að rekja til súrrealisma og expressjónisma þar sem listamaðurinn reynir að fanga ákveðnar tilfinningar og hughrif með aðferð sem kallast automatic drawing. Þar reynir listamaðurinn að láta undirmeðvitundina ráða ferðinni eins og kostur er. Atli er Ólafsfirðingur en býr nú og starfar á Akureyri. Hann útskrifaðist af listabraut Menntaskólans á Tröllaskaga, myndlistar- og listljósmyndunarsviði, árið 2013 og hélt svo áfram námi í fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri þaðan sem hann útskrifaðist vorið 2017. Atli hélt einkasýningu í Kaktus á Akureyri árið 2018 og tók þátt í samsýningunni Salon Des Refuses í Deiglunni á Akureyri árið 2023. Listamaður mánaðarins er sýningarröð sem féll niður á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir en er nú komin af stað á ný. Er öllum velkomið að líta inn í skólann og njóta sýningarinnar.
Lesa meira

Fjölbreytt verkefni í skapandi tónlist

Í miðannarvikunni var áfangi í skapandi tónlist fyrir þá nemendur skólans sem ekki fóru til Kaupmannahafnar að taka þátt í verkefninu sem segir frá í síðustu frétt okkar. Í áfanganum var farið yfir ýmsa þætti sem tengjast tónlist, s.s. hópsöng, laga- og textasmíði, framkomu, skífuþeytingar, líkamsstöðu og öndun í söng o.fl. Kennari var Katrín Ýr Óskarsdóttir sem starfar sem söngkona í London og kennir raddbeitingu við Háskólann í vestur London.
Lesa meira

Margt áhugavert í kóngsins Köben

Einn af nyjum áföngum þessarar annar kallast Erlent verkefni, Ísland, Danmörk, fjölmenning. Í áfanganum er fjallað um sögulegt samband Íslands og Danmerkur sem og alþjóðasamvinnu. Þungamiðja áfangans er ferð til Kaupmannahafnar sem farin var nú í miðannarvikunni, er hún styrkt af Erasmus+. Þangað fóru 13 nemendur og þrír kennarar. Fyrri hluta annarinnar var ferðin undirbúin og seinni hluti annarinnar fer í að vinna úr þeirri vitneskju og reynslu sem nemendur öðluðust í ferðinni.
Lesa meira

Fjölþjóðlegt kaffiboð í lok fjörugrar viku

Í síðustu viku var óvenju fjölmennt og fjörlegt hjá okkur í skólanum. Í heimsókn var 30 manna hópur nemenda og kennara úr skólum frá Spáni, Portúgal og Króatíu. Þessir skólar eru í samstarfi við MTR í verkefni sem kallast "Becoming a Biomaker School". Snýst það um þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem lúta að umhverfi og sjálfbærni og er Erasmus+ verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. Vinnan í verkefninu þessa viku í MTR var mjög fjölbreytt. Unnið var með heimsmarkmiðin og þau tengd við þá grænfánavinnu sem fer fram í skólanum.
Lesa meira

Góðir gestir í heimsókn

Þessa viku er fjölmennt í skólanum. Í heimsókn eru nemendur og kennarar úr skólum frá Spáni, Portúgal og Króatíu, samtals um 30 manns. Þessir skólar eru í samstarfi við MTR í verkefni sem kallast "Becoming a Biomaker School". Snýst það um þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem lúta að umhverfi og sjálfbærni og er Erasmus+ verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. Verkefnið hófst formlega í Lissabon í Portúgal í lok síðustu annar þar sem fulltrúar spænska skólans og 14 manna hópur frá MTR sótti portúgalska skólann heim en Króatarnir tóku þátt með rafrænum hætti í það skipti.
Lesa meira

Fjölbreytt viðfangsefni í lýðheilsu

Sagt er að góð heilsa sé gulli betri og er nokkuð til í þeirri fullyrðingu. Reglubundin hreyfing er einn lykillinn að góðri heilsu og þá er mikilvægt að finna sér íþrótt eða einhverja hreyfingu sem þér finnst gaman að því þá er mun líklegra að þú stundir hana reglulega. Á skólaárunum er mikilvægt að kynnast sem fjölbreyttustum íþróttum og hreyfingarmöguleikum því þá hefur þú einhverjar hugmyndir um hvaða hreyfing hentar þér þegar skólaárunum sleppir
Lesa meira

Fyrsti fánadagur heimsmarkmiðanna á Íslandi

Í dag, mánudaginn 25. september, er fyrsti fánadagur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Framtakið hófst árið 2019 og vinsældir þess hafa farið ört vaxandi um allan heim. Sífellt fleiri þjóðir taka þátt og nú hefur Ísland bæst í hópinn. Það er United Nations Global Compact sem stendur að framtakinu til að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna. Fyrirtæki, stofnanir, skólar, samtök og sveitarfélög sem eru aðilar að UN Global Compact og/eða hafa hafið innleiðingu á heimsmarkmiðum í rekstur sinn geta tekið þátt í framtakinu.
Lesa meira

Sérfræðiþekking til útflutnings

Menntaskólinn á Tröllaskaga er í margvíslegu erlendu samstarfi og er þar bæði um að ræða verkefni með virkri þátttöku nemenda og eins verkefni þar sem kennarar sækja sér þekkingu eða veita hana. Talsverð eftirspurn er eftir þeirri þekkingu sem orðið hefur til á fjarkennslu og upplýsingatækni í MTR og eitt þeirra verkefna sem er í gangi nú er af þeim toga. Um er að ræða tveggja ára verkefni þar sem unnið er með aðilum í Póllandi að gerð rafræns kennsluefnis í ensku, en efnið verður aðgengilegt og ókeypis á netinu. Verkefnið er styrkt af sjóði sem kallast EEA, en hlutverk hans er að efla tengsl Íslands, Noregs og Liechtenstein við ýmis önnur Evrópuríki, og í því veita fimm kennslukonur frá MTR pólskum kollegum sínum sérfræðiþekkingu í að þróa kennsluhætti og innleiða notkun upplýsingatækni í skólastarfi.
Lesa meira