Almennt
03.12.2025
Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og einn liðurinn í að rækja skyldur sínar sem slíkur er að halda upp á nokkra alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna þar sem sjónum er beint að ákveðnu málefni. Á skólafundi í haust völdu nemendur fjögur málefni sem þeim þótti mikilvægast að fá fræðslu um og vekja athygli á og eitt þeirra var kynbundið ofbeldi. Alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi var 25. nóvember og þá hófst 16 daga herferð þar sem athyglinni er beint sérstaklega að kynbundnu ofbeldi sem fer fram með stafrænum hætti. Það er áreitni, misnotkun eða annað ofbeldi sem á sér stað í síma, tölvum eða á netinu. Átakinu lýkur 10. desember, á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna.
Í tilefni átaksins var dagskrá í skólanum í dag þar sem farið var yfir mögulegar birtingarmyndir stafræns ofbeldis og viðbrögð gegn því. Fræðsla er mikilvæg í þessum efnum sem öðrum því með aukinni vitund, stuðningi og skýrum viðbrögðum getum við dregið úr þessu vaxandi vandamáli og stutt þau sem verða fyrir slíku ofbeldi. Einkennislitur 16 daga átaksins er appelsínugulur, táknar hann von og líf án ofbeldis. Mættu þó nokkrir klæddir þessum líflega lit í skólann í dag og boðið var upp á mandarínur meðan fræðslan fór fram.
Meðfylgjandi er glærukynning sú sem farið var yfir í dag og talar Ida Semey, kennari skólans inn á hana. Einnig er hér að neðan slóð á síðu UN Women þar sem er frekari fræðsla og frétt um átakið.
Lesa meira
Almennt
01.12.2025
Menntaskólinn á Tröllaskaga (MTR) offers courses in Icelandic as a second language (ÍSAN) at two levels: beginner and intermediate. These courses are taught online and offline.
The beginner's course is intended for students whose first language is not Icelandic. The course corresponds to levels A1–A2 of the Common European Framework of Reference for Languages (CEFR). The focus is on Icelandic vocabulary related to the students’ immediate environment, as well as pronunciation, listening, reading, and writing skills.
The intermediate-level course is designed for students who study Icelandic as a foreign language and already speak and understand the language reasonably well. Students continue to develop the essential elements of the language and build a more advanced vocabulary while strengthening their listening, writing, reading, and speaking skills.
Lesa meira
Almennt
26.11.2025
Það var skemmtileg stund hjá okkur í skólanum í morgun þegar starfsbraut skólans bauð til kökusamsætis í tilefni af alþjóðadegi umburðarlyndis sem var í síðustu viku. Á þeim degi er lögð áhersla á að sýna öðrum virðingu og mildi og minna á að öll höfum við okkar rétt óháð stöðu og bakgrunni. Undirbúningur hefur staðið undanfarnar vikur og hefur viðfangsefnum í stærðfræði- og tilveruáföngum annarinnar verið blandað saman. Bakaðar voru fjórar sortir í tilveruáfanganum en í stærðfræðinni fór undirbúningurinn fram. Farið var í búðina til að kaupa hráefni og í leiðinni var verð hverrar vöru skoðað og spáð í magntölur og þyngdir svo innkaupin yrðu sem hagstæðust. Svo þurfti að margfalda uppskriftir og passa að öll hlutföll væru í lagi áður en farið var af stað í baksturinn.
Nemendaráð ákvað að skora á nemendur og kennara að mæta í sparifötum í skólann í tilefni dagsins og mættu margir í sínu fínasta pússi. Jólatríó, skipað tveimur nemendum og einum kennara, flutti svo nokkur jólalög meðan veitinganna var notið. Úr varð hin notalegasta stund, heilmikill lærdómur og áminning um að vera góð við hvert annað.
Lesa meira
Almennt
20.11.2025
Menntaskólinn á Tröllaskaga á orðið ágætt safn listaverka. Flest eru verkin eftir listafólk af svæði skólans og gefa hugmynd um þá listsköpun í þessum geira sem á sér stað hér nyrst á Tröllaskaga. Hugað er að því að hafa verk til sýnis sem víðast um skólann þannig að þau verði hluti af daglegu lífi nemenda og starfsfólks. Einnig eru reglulega settar upp sýningar í sal skólans á verkum listafólks af svæðinu til að krydda menningarlífið í skólanum og vekja athygli á starfandi listafólki sem býr í nágrenni hans.
Lesa meira
Almennt
12.11.2025
Kennarar skólans eru frjóir og skapandi og hafa margoft sýnt og sannað að þeir standa vel undir einkunnarorðum skólans: Frumkvæði - sköpun - áræði. Kolbrún Halldórsdóttir, einn af íslenskukennurum skólans, er gott dæmi. Hún fékk styrk úr námsgagnasjóði Rannís vorið 2024 til að hanna og setja upp notendavæna og aðgengilega vefsíðu þar sem hugmyndin var að bjóða upp á fjölbreytt gagnvirk verkefni í íslensku á framhaldsskólastigi. Síðan heitir Áfram íslenska og var opnuð núna á haustdögum. Hún var valin sem ein af fjórum bestu hugmyndunum í flokknum Námsgögn á Menntaþoni í júní sl. Að Menntaþoninu standa Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS), Þróunarsjóður námsgagna, NýMennt Háskóla Íslands, IÐNÚ og Samtök menntatæknifyrirtækja (IEI).
Lesa meira
Almennt
06.11.2025
Gott og fjölbreytt starf er unnið á listabraut skólans og þar hafa margir nemendur fengið góðan grunn og kynnst tækni til að þróa sína listsköpun áfram. Einn þeirra nemenda sem hefur blómstrað í námi sínu undanfarnar annir er Emilía Sigrún Karlsdóttir en hún hefur stundað fjarnám við skólann og er að útskrifast með stúdentspróf af listabraut í næsta mánuði. Hún vann áhugavert lokaverkefni í ljósmyndaáfanga s.l. vor, lokaverkefni sem nú er orðið að sýningu í höfuðborginni. Sýningin kallast Endurtekning og er í Borgarbókasafninu í Árbæ.
Lesa meira
Almennt
30.10.2025
Margir tóku áskorun nemendaráðs skólans og mættu í skólann í gær klæddir búningum í anda hrekkjavöku. Var áskoruninni beint jafnt að nemendum sem starfsfólki því ungmennunum þykir alltaf gaman þegar þau sem eldri eru taka sig ekki of alvarlega og eru til í að vera með í smá sprelli. Sáust margir skemmtilegir og frumlegir búningar, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Linda Sól, nemandi skólans, var verðlaunuð fyrir besta búninginn. Í kvöld munu nemendur koma saman í skólanum og horfa á fjörlega mynd sem gerist á hrekkjavöku. Er ekki ólíklegt að hárin rísi!
Lesa meira
Almennt
29.10.2025
Dagana 11. - 17. október fóru nokkrir nemendur við MTR í ferð til Tallinn í Eistlandi í fylgd tveggja kennara. Þar tóku þeir þátt í Nordplus samstarfsverkefni með þremur skólum; einum eistneskum og tveimur finnskum. Verkefnið kallast “Bridging Minds & Cultures Through Stories” (Að tengja menningu og hug með sögum) og er markmiðið að nemendur kynnist menningu mismunandi landa og vinni með andlega heilsu í gegnum söguformið. Unnið var í hópum eftir ýmsum þemum eins og t.d. draumar, fjölskylda og vinátta og afrakstur vinnunnar var fjölbreyttur; tónlist, hlaðvörp, veggspjöld og listaverk. Farið var í ratleik um sögulegar slóðir í borginni og einnig voru haldin menningarkvöld þar sem hver skóli kynnti sína menningu. Fengu nemendur þá meðal annars að kynnast finnska jólasveininum og eistneskri síld. Okkar nemendur kynntu Ísland og íslenska menningu og þótti erlendu nemendunum sérstaklega áhugavert að læra um íslenska stafrófið og Íslendingabók.
Lesa meira
Almennt
23.10.2025
Mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristjánsson, hefur að undanförnu heimsótt framhaldsskóla landsins og í dag var komið að því að sækja MTR heim. Í fylgd með ráðherra voru þrír starfsmenn ráðuneytisins. Heimsóknin hófst með því að nemendaráð fylgdi ráðherra og fylgdarliði hans um skólahúsnæðið og sagði frá því sem fyrir augu bar. Síðan var fjölmennt á sal þar sem nemendur, starfsfólk, fulltrúar bæjarstjórnar og formaður skólanefndar hlýddu á og tóku þátt í dagskrá heimsóknarinnar. Fyrst tók Inga Eiríksdóttir, fulltrúi kennara, til máls. Fór hún stuttlega yfir sögu skólans og vakti athygli á vexti hans og mikilvægi í samfélaginu auk þess að segja frá skipulagi námsins, fjölbreyttum verkefnaskilum, símati, vinsælu fjarnámi og einstökum starfsanda.
Þá steig ráðherra í pontu og fór yfir nokkur mál sem snerta starfsemi framhaldsskólanna og sérstaklega hugmyndir að nýju skipulagi fyrir opinbera framhaldsskóla. Markmið þeirra er að styrkja starf framhaldsskólanna og efla þjónustu við nemendur. Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, sérfræðingur í Mennta- og barnamálaráðuneytinu, ræddi þessar hugmyndir svo nánar áður en boðið var upp á spurningar úr sal. Sköpuðust út frá þeim spurningum ágætar umræður en þar sem hugmyndirnar eru enn á mótunarstigi voru engin bein svör nema að viðstaddir voru fullvissaðir um að ekki ætti að skerða fjárframlög til skólanna.
Eru þessum góðu gestum færðar þakkir fyrir komuna.
Lesa meira
Almennt
22.10.2025
Í dag var Erasmus-dagur hjá okkur þar sem athygli var vakin á þeim tækifærum sem styrkir úr Erasmus+ áætlun ESB veita nemendum sem kennurum. Fyrsta verkefnið sem MTR tók þátt í var strax á þriðja starfsári skólans, haustið 2013, og síðan þá hefur skólinn tekið þátt í á fjórða tug verkefna með skólum vítt og breitt um Evrópu. Má segja að vegna þeirra styrkja sem skólinn hefur notið úr áætluninni séu erlend samskipti eitt einkennismerkja hans og setja þau mark sitt á skólastarfið á hverri önn.
Lesa meira