Erlend verkefni fréttir

Ævintýri á Ítalíu

Sjálfbærni og valdefling ungs fólks til atvinnusköpunar er þema Erasmusverkefnis sem MTR hefur tekið þátt í og lýkur á Ítalíu í næstu viku. Verkefnið tók tvö ár og er þema þess að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Allir þátttakendur eru af landsbyggðinni í heimalöndum sínum og munu ef að líkum lætur þurfa að skapa eigin tækifæri til framfærslu í heimabyggð. Vinnan tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum og íþróttum. Samstarfsskólarnir eru á Lanzarote, einni Kanaríeyjanna og á Ítalíu. Heimsókn ítölsku og íslensku nemanna til Lanzarote í febrúar í fyrra tókst með miklum ágætum og í haust dvöldu hópar frá samstarfsskólunum hér á Tröllaskaga. Um helgina kynnti íslenski hópurinn sér sögu Rómar, skoðaði ýmsar menningarminjar og fylgdist með mannlífinu. Ellefu nemendur og tveir starfsmenn eru í ferðinni. MTR-nemar söfnuðu fyrir aukadvöl í Róm með því að þrífa bifreiðar. Þau kynntu spænskum og ítölskum félögum sínum hugmynd að bifreiðaþvottafyrirtæki sem hægt væri að stofna og reka á Tröllaskaga.
Lesa meira

Tyrklandsfarar í góðu yfirlæti

Sjö manna hópur úr MTR dvelur þessa viku í góðu yfirlæti í Istanbúl. Tilgangur ferðarinnar er að heimsækja Ömer Cam drengjaskólann í Asíuhluta borgarinnar. Einnig hefur hópurinn farið í skoðunarferðir, m.a. í gömlu Istanbúl og til borgarinnar Bursa í Anatólíu. Á morgun verður siglt um Bosporussundið milli Marmarahafs og Svartahafs og á laugardag heldur hópurinn heim með nýja reynslu í farteskinu.
Lesa meira

Enskuspjall við Sikileyinga

Tryggvi Hrólfsson, enskukennari í MTR hefur skipulagt samstarfsverkefni með kunningja sínum Anthony M. La Pusata, enskukennara í E. Majorana skólanum á Sikiley. Verkefnið snýst um að nemendur þar og hér ræði saman á enskri tungu í nokkrum kennslustundum. Í upphafi komu ítölsku nemarnir í heimsókn í nærverunum og skoðuðu skólann. Síðar í vikunni koma þau aftur í kennslustund og hugmyndin er að staðnemar spjalli við þau í litlum hópum eða maður við mann án þess að kennararnir séu að skipta sér af. Tilgangurinn er að æfa eðlilegt samtal á ensku og að nemendur kynnist menningu og lífsháttum hver hjá öðrum. La Pusata er Breti en hann og Tryggvi kynntust í erlendu samstarfsverkefni á síðasta ári.
Lesa meira

GERE-ráðstefnan hafin

Lára Stefánsdóttir, skólameistari setti evrópuráðstefnuna um hnattræna menntun í dreifbýli í sal skólans, Hrafnavogum, síðdegis. Hún útskýrði hvernig nám í MTR væri skipulagt og hve sveigjanleg námsskrá væri mikilvæg við uppbyggingu framhaldsskóla hér á landi. Herbert Eile, leiðtogi alþjóðlegu samtakanna um upplýsingatækni í skólstarfi ræddi um mikilvægi menntunar í dreifbýli og þakkaði þeim sem hafa undirbúið ráðstefnuna. Gestir eru um áttatíu þar af um helmingur frá öðrum löndum. Í morgun notuðu fjölmargir gestanna tækifærið og fóru í skólaheimsóknir í Fjallabyggð en einnig fór hópur í kynnisferð í Háskólann á Akureyri. Þar hafði fólk mestan áhuga á róbót sem nýlega hefur verið tekinn í notkun. Eftir heimsóknina í HA skoðaði hópurinn Akureyri og nágrenni í fegursta haustveðri.
Lesa meira

Alþjóðleg ráðstefna

Hnattræn menntun í dreifbýli er yfirskrift alþjóðlegrar ráðstefnu sem MTR heldur í Ólafsfirði í næstu viku. Nýjar aðferðir, hreyfanleiki og aðlögun verða í forgrunni margvíslegrar umfjöllunar um upplýsingatækni í skólastarfi. Þetta er þrettánda ecoMEDIAeurope ráðstefnan. Starfsmenn MTR hafa sótt margar þeirra fyrri og verið áberandi þar. Þess vegna lögðu ecoMEDIAeurope samtökin til að skólinn héldi ráðstefnuna í ár til að starfsmenn annarra skóla gætu fræðst um kennsluaðferðir og skipulag náms í MTR. Leiðtogar, sérfræðingar, kennarar og aðrir starfsmenn frá nokkrum löndum auk Íslands sækja ráðstefnuna sem stendur í fimm daga. Um áttatíu hafa skráð sig til leiks – um helmingur frá öðrum löndum. Meðal annars koma gestir frá Þýskalandi, Sviss, Grikklandi, Lettlandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Nánar um ráðstefnuna hér: https://www.mtr.is/ecomedia
Lesa meira

Endurvinnsla á Tenerife

Hópur sjö MTR-nema og eins kennara dvelur þessa viku á Tenerife og tekur þátt í Erasmus+ verkefninu HELP sem snýst meðal annars um endurvinnslu. Jafn stórir hópar ungmenna frá Litháen og Noregi taka þátt í verkefninu auk hóps heimamanna á Tenerife. Í fyrri áföngum þess var fjallað um vistvænar afurðir og um mengun.
Lesa meira

Suðrænir gestir

Hópur framhaldsskólanema frá Tías á Lanzarote og PT skólanum á Ítalíu eru gestir nemenda MTR næstu sjö daga. Skólarnir eru í samstarfsverkefni um valdeflingu og sjálfbærni. Það eflir nemendur dreifðra byggða í því að finna leiðir til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Gestirnir eru 28, tuttugu og þrír nemendur og fimm kennarar. Í móttökunefndinni eru 20 nemendur og þrír kennarar.
Lesa meira

MTR-list í Kaliforníu

Nemendur og kennarar MTR eiga listaverk á tveimur sýningum sem opnar eru Monterey og Santa Cruz í Kaliforníu. Skólinn er í samstarfi við Monterey Peninsula College (MPC) um verkefni sem kallast „Shared Seas“ og fjallar um að við deilum hafinu. Sýningarnar eru haldnar til að heiðra þetta menningarsamstarf tveggja sjávarþorpa sem staðið hefur í tvö ár. Þar gefur að líta verk eftir nemendur og starfsmenn skólanna tveggja. Sýningar eru í Radius Gallery, þar sem sýningarstjórn er í höndum Robynn Smith og Margaret Niven og í Monterey Peninsula College Gallery, undir stjórn Melissu Pickford. Meðal þeirra sem eiga verk á sýningunum eru Margaret Niven, Linda Craighead, Jamie Dagdigian, Claire Thorson, Bergþór Morthens, Lára Stefánsdóttir, Alkistis Terzi, Karólína Baldvinsdóttir, Robynn Smith, Páll Helgi Baldvinsson, Anna Þórisdóttir, Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir og Telma Róbertsdóttir. Einnig eru sýnd tvö verk sem voru unnin í samstarfi fjölmargra nemenda í MTR.
Lesa meira

Á hundasleða í Noregi

Sex nemendur MTR tóku þátt í samstarfsverkefninu HELP í síðustu viku. Auk norskra og íslenskra þátttakenda eru nemendur frá Litháen og Spáni með í verkefninu. Viðfangsefnið var vistvænar afurðir og vistvænar merkingar. Íslensku nemendurnir greindu frá því að hér væru ekki vistvænar merkingar sem hægt væri að taka mark á en þátttakendur frá hinum ríkjunum sögðu að lög giltu um slíkar merkingar hjá sér. Íslendingarnir greindu meðal annars frá Brúneggjamálinu og að þeir teldu að bæta þyrfti stöðuna í þessum málum hér á landi. Á dagskránni var heimsókn á vistvænan búgarð þar sem hægt var að skoða dýrin í návígi og kynna sér allan aðbúnað þeirra. Hópurinn heimsótti líka dýragarð þar sem einn íslendingurinn varð fyrir því að lamadýr hrækti í augað á honum. Listir og menning sátu ekki á hakanum og var heimsókn í listasafn á dagskránni, einnig danskvöld og svo elduðu þátttakendur hvers lands einhvern þjóðlegan rétt og hópurinn naut sameiginlegrar máltíðar. MTR-nemar elduðu kjötsúpu og segja að hún hafi slegið í gegn. Hjá þeim vakti athygli rétturinn frá Litháen – en það voru kleinur alveg eins og þær íslensku nema hvað flórsykri hafði verið stráð yfir þær. Lokapunktur verkefnisins var sjónvarpsþáttur sem nemendur gerðu og sendu út beint á föstudeginum en norski skólinn er vel búinn tækum til slíks. Þáttinn má sjá hér. Hundasleðaferð var sá atburður sem stóð uppúr hjá Íslendingunum.
Lesa meira

Lanzaroteferð

Undirbúningur ellefu nema fyrir næsta áfanga í erlenda samstarfsverkefninu um sjálfbærni og valdeflingu er í fullum gangi. Lagt verður af stað á föstudag og komið heim tíu dögum síðar. Samstarfsaðilar eru framhaldsskólar á Lanzarote, einni Kanaríeyja og á Ítalíu. Íslendingar og Ítalir ferðast til Lanzarote í þessum áfanga verkefnisins og njóta gestrisni heimamanna þar. Markmiðið er að sjá og skoða sem mest af því sem ferðaþjónusta á eynni býður gestum. Spurningin er - hvers njóta ferðamenn þar? Flestir MTR nemar gista hjá fjölskyldum og hafa þegar hafið samskipti við gestgjafa sína. Samstarfsaðilarnir á Lanzarote hafa undirbúið komu gestanna mjög vandlega og greinilega hugsað fyrir flestu. Almenningssamgöngur eru til dæmis lélegar á eynni og hafa gestgjafarnir því útvegað bílaleigubíla til að komast á milli staða. Sérstakir bolir hafa líka verið hannaðir fyrir þátttakendur. Ferðareglur hópsins frá MTR eru fimm og er þar efst á blaði að allir séu jákvæðir, haldi hópinn, sýni kurteisi og tillitssemi og láti strax vita ef eitthvað bjátar á. Verkefnið tekur tvö ár og er þema þess að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Allir þátttakendur eru af landsbyggðinni í heimalöndum sínum og munu ef að líkum lætur þurfa að skapa eigin tækifæri til framfærslu í heimabyggð. Vinnan tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum og íþróttum. Hugmyndin er „samstarf við þróun viðskiptahugmynda sem geta veitt lífsviðurværi í sjálfbærum samfélögum á ólíkum stöðum“. Tilgangurinn er að auka líkur á að ungt fólk skapi sér framtíð í heimabyggð. Erasmusstyrkur að upphæð ellefu milljónir króna fékkst til verkefnisins og því er stýrt af starfsmönnum MTR.
Lesa meira