Erlend verkefni
15.10.2024
Eins og við sögðum frá á dögunum þá dvaldi 15 manna hópur lettneskra nemenda, þrír kennarar þeirra og skólastjóri í Fjallabyggð alla síðustu viku til að taka þátt í samstarfsverkefni með nemendum í MTR. Verkefnið er styrkt af Nordplus og snýst um að kynna sér óáþreifanlegan menningararf Íslands. Hinir erlendu gestir komu frá bænum Saldus, þar sem búa um tíu þúsund manns, og voru þeir í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR.
Lesa meira
Erlend verkefni
10.10.2024
Þessa viku dvelur 15 manna hópur lettneskra nemenda og þrír kennarar þeirra í Fjallabyggð til að taka þátt í samstarfsverkefni með nemendum í MTR. Þetta er Nordplus verkefni sem snýst um að kynna sér menningararf Íslands, jafnt áþreifanlegan sem óáþreifanlegan. Hinir erlendu gestir koma frá Saldus vidusskola sem er í bænum Saldus þar sem búa um tíu þúsund manns. Nemendurnir eru í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR og fá þannig nasasjón af lífinu í íslensku samfélagi.
Lesa meira
Erlend verkefni
14.05.2024
Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur notið ríkulegra styrkja úr áætlunum ESB síðustu ár og tekið þátt í fjölda verkefna með tilstuðlan þeirra. Þann 8. maí sl. tók MTR þátt í uppskeruhátíð Evrópuverkefna, bar hún yfirskriftina Evrópusamvinna í 30 ár. Fór hátíðin fram í Kolaportinu í Reykjavík, var öllum boðið að líta inn til að fræðast og njóta.
Ida Semey, kennari skólans, hefur stýrt vinnu við erlend verkefni í MTR og náð árangri sem eftir hefur verið tekið. Hefur mikið verið leitað til skólans um samstarf bæði fyrir nemendur og kennara. Ida var í kynningarbás skólans á uppskeruhátíðinni ásamt Láru Stefánsdóttur skólameistara. Kom fjöldi fólks þar við og spurði margs. Lára tók einnig þátt í pallborðsumræðum á málþinginu og vakti framlag hennar töluverða athygli. Ræddi hún sérstaklega hversu mikilvægt væri fyrir fámennan skóla í dreifbýli að hafa tök á því að senda nemendur sína og kennara vítt og breitt um Evrópu til að víkka sjóndeildarhringinn, auka menntun og koma á nýjum kynnum. Ekki síður væri ánægjulegt að fá góða gesti í skólann og fræða þá um aðferðafræði skólans og starfshætti að ógleymdri íslenskri menningu og sögu. Í máli Láru kom einnig fram að skólinn hefur átt í samstarfi við aðila frá 27 af þeim 30 löndum sem Evrópusamstarfið nær til með tilstuðlan Evrópustyrkjanna.
Á hátíðinni var Evrópuverkefnum sem þykja hafa staðið upp úr undanfarin ár veittar viðurkenningar. Fékk Menntaskólinn á Tröllaskaga viðurkenningu fyrir endurmenntunarnámskeið sem starfsfólk skólans sótti í Puerto de la Cruz á norðurströnd Tenerife í kjölfar Covid faraldursins. Þar var megin viðfangsefnið streita, að læra að þekkja streituvalda og að tileinka sér aðferðir til að vinna bug á þeim sem svo aftur minnkar hættuna á kulnun í starfi. Þetta var vikunámskeið, styrkt af Erasmus+
Á uppskeruhátíðinni var árangri undanfarinna ára fagnað og gestir gátu kynnt sér fjölmörg verkefni sem hafa fengið styrki úr áætlunum ESB. Verkefnin komu víða að úr samfélaginu, enda hafa samstarfsáætlanir ESB styrkt íslenska aðila á ýmsum sviðum t.d. á sviði menntamála, kvikmyndagerðar, æskulýðsmála, rannsókna og nýsköpunar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, opnaði hátíðina og fjölmargir aðilar, m.a. menntastofnanir, félagasamtök og sveitarfélög kynntu árangur sinna verkefna. Einnig kynntu sendiráð nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins, Sendinefnd ESB og kjörræðismaður Rúmeníu á Íslandi, menningu sína og tengsl sín við Ísland.
Að málþinginu stóðu Rannís, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi og var það að morgni sýningardagsins. Málþingið bar yfirskriftina: EES í 30 ár – ávinningur, tækifæri, áskoranir. Þar var sjónum beint að þátttöku Íslands í innri markaði Evrópu og evrópskum samstarfsáætlunum og rætt hvaða áskoranir og tækifæri framtíðin ber í skauti sér. Málþingið sátu fjöldi fulltrúa sendiráða, til að fræðast og leita eftir samstarfi, sem og ráherrar og þingmenn. Á seinustu 30 árum hefur Íslandi tekist með góðum árangri að tryggja sér ESB fjármögnun og þátttaka Íslands í samstarfsáætlununum hefur skapað dýrmæta þekkingu og reynslu. Á árunum 2014 til 2020 stunduðu rúmlega 26 þúsund manns nám á Íslandi og heimsóttu Ísland sem hluta af EES-samstarfinu. Á sama tímabili stunduðu rúmlega 14 þúsund Íslendingar nám í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í dag stuðlar þátttaka Íslands í samstarfsáætlunum ESB að öflugu samfélagi, atvinnulífi og menningu hér á landi.
Lesa meira
Erlend verkefni
17.04.2024
Líkt og við höfum áður sagt frá var óvenju gestkvæmt hjá okkur í skólanum í síðustu viku m.a. var hér nemendahópur frá spænska skólanum IES Andreu Sempere, sem staðsettur er í Alcoy á Alicante, og með þeim tveir kennarar. Hópurinn var hér í nokkra daga og nemendurnir gistu hjá nemendum MTR á meðan á heimsókninni stóð. Báðir skólarnir eru UNESCO skólar og eru í samstarfsverkefni þar sem tilgangurinn er að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig verkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni.
Lesa meira
Erlend verkefni
12.04.2024
Það var mikið líf í skólanum í gær þegar 45 kennarar frá Noregi og Slóveníu komu í heimsókn til að kynna sér starfsemi hans og kennsluhætti. Fulltrúar nemendafélagsins Trölla tóku á móti hinum erlendu gestum og sögðu síðan frá skólastarfinu eins og það horfir við nemendum. Fengu þau margar spurningar að þeirri kynningu lokinni og svöruðu þeim skilmerkilega.
Næst tóku við kynningar kennara MTR þar sem þeir sögðu frá kennslu bóklegra greina, erlendum samstarfsverkefnum, þjónustu við nemendur, frumkvölafræði, listkennslu og kennslu í gegnum nærverur. Kynningarnar fóru fram við fjögur borð, hver þeirra var nokkrar mínútur og svo gafst tími til samræðna áður en gestirnir færðu sig á næsta borð. Þótti gestunum margt mjög áhugavert sem þarna kom fram og spurðu margs.
Þá tók við sameiginlegur hádegisverður þar sem áfram var spjallað og síðan ræddi Lára Stefánsdóttir skólameistari við hópinn og svaraði ýmsum spurningum frá fróðleiksþyrstum og áhugasömum gestum.
Heimsóknin var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES sem er ætlað að efla samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar. Heppnaðist hún eins og best verður á kosið; gestirnir mjög ánægðir og sögðust hafa lært margt gagnlegt.
Lesa meira
Erlend verkefni
09.04.2024
Það er gestkvæmt í skólanum þessa vikuna. Í dag komu 11 nemendur af íþróttabraut Verkmenntaskólans á Akureyri í heimsókn. Þeir eru í fjölíþróttaáfanga á þessari önn þar sem markmiðið er að kynnast fjölbreyttum íþróttum. Fyrsta stopp þeirra á ferð sinni frá Akureyri var á Hjalteyri þar sem þau spreyttu sig í hinum glæsilega klifurvegg sem er í gömlu verksmiðjunni þar. Í Ólafsfirði var byrjað á að fara í ýmsa leiki á gönguskíðum undir stjórn Lísebetar Hauksdóttur, íþróttakennara í MTR, og svo kenndi hún nemendum réttu tökin í þessari góðu íþrótt. Að loknu matarhléi var farið í íþróttahúsið í ýmsa leiki og þrautir með nemendum MTR og heimsókninni lauk á afslöppun í sundlauginni. Heimsókn sem þessi hefur verið fastur liður síðustu ár og hafa þær Lísebet og Birna Baldursdóttir, íþróttakennari í VMA, séð um skipulagið.
Lesa meira
Erlend verkefni
19.03.2024
Á dögunum dvaldi Ida Semey, kennari við MTR, í framhaldsskólanum IES Andreu Sempere í Alcoi á Spáni í nokkra daga og fylgdist þar með skólastarfi og kennslu. Skólarnir tveir, MTR og IES Andreu Sempere, eiga margt sameiginlegt eru t.d. báðir Erasmus og UNESCO skólar og var dvöl Idu styrkt af Erasmus+ áætluninni. Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem skólarnir eiga í samstarfi því vorið 2023 heimsótti starfsfólk MTR spænska skólann í námsferð sinni til Alicante og von er á nokkrum nemendum frá IES Andreu Sempere í heimsókn til Ólafsfjarðar í næsta mánuði. Munu þeir kynnast skólastarfinu í MTR og dvelja hjá nemendum skólans á meðan á heimsókninni stendur. Ida fundaði með þessum nemendum og kennara þeirra og fór yfir dagskrána sem nemendur í umhverfis áfanga MTR hafa útbúið vegna heimsóknarinnar. Áherslan er á að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig samstarfsverkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni. Auk þess munu nemendur kynna sér hvaða menningar- og náttúrustaðir í löndunum tveimur eru á Heimsminjaskrá UNESCO.
Lesa meira
Erlend verkefni
26.02.2024
Þrír kennarar frá MTR tóku þátt í námskeiði á Lanzarote, austustu eyju Kanaríeyja, í síðustu viku. Námskeiðið kallaðist ART AND NATURE FACING THE CHALLENGE OF SUSTAINABILITY, sem mætti þýða sem Listir og náttúra mæta áskorun um sjálfbærni. Námskeiðið var sérstaklega hannað handa hópi kennara úr fjórum framhaldsskólum á Íslandi: FB, FSN, MTR og Verzló og styrkt af Erasmus+ áætluninni. Endurmenntunarstofnun kennara á Lanzarote, CEP, sá um skipulagningu þess og naut íslenski hópurinn sérstakrar gestrisni fulltrúa þeirra sem og sveitarfélags svæðisins.
Lesa meira
Erlend verkefni
25.01.2024
Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og stendur sem slíkur fyrir dagskrá nokkra þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum. Í gær, þann 24. janúar, var Alþjóðlegi menntadagurinn og beindi UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, kastljósinu að hatursorðræðu en menntun og kennarar hafa lykilhlutverki að gegna í að takast á við hana. Hatursorðræða hefur magnast á undanförnum árum í skjóli samfélagsmiðla og hefur oft og tíðum grafið undan samheldni samfélaga.
Lesa meira
Erlend verkefni
28.11.2023
Menntaskólinn á Tröllaskaga er meðlimur í FLUID, sem eru dönsk samtök um fjarnám. Samtökin skipulögðu ferð á hina árlegu ráðstefnu Online Educa Berlin, OEB 2023, sem bar undirtitilinn “The 29th Annual Global Cross-Sector Conference and Exhibition on Digital Learning and Training “ og fór hún fram dagana 22. - 24. nóvember sl. Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 2000 og þar af voru tveir kennarar frá MTR. Þema ráðstefnunnar í ár var “The learning futures we choose” .
Lesa meira