Viðbrögð vegna jarðskjálftavár

MTR mynd GK
MTR mynd GK

Nú er í gangi jarðskjálftahrina fyrir norðan land. Sú hrina sem nú stendur yfir er á nyrðra þverbrotabelti sem liggur norður af Grímsey en ekki því sem er nær okkur og liggur sunnan Grímseyjar og er næst okkur nokkuð norður af Siglufirði og liggur síðan til Þeistareykja. Sjaldnast leiða þessar hrinur til stærri skjálfta en möguleikinn er fyrir hendi og þekkt að stærri skjálftar verða á okkar svæði með jöfnu millibili. Því teljum við mikilvægt að fara yfir viðbrögð við jarðskjálftavá og hefur öryggisáætlun sú sem verið er að vinna núna verið uppfærð. Búið er að fara yfir helstu atriði með kennurum og verður farið yfir málið með nemendum á miðvikudag. Búið er að fara yfir húsnæði skólans og skilgreina hverju þarf að bæta úr frá því síðast var farið yfir. 

Uppfært kl. 13:20 - Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi.

Hér má finna viðbrögð skólans:

Viðbrögð vegna jarðskjálftavár
Þegar jarðskjálftahrina hefst á svæðinu fara skólastjórnendur yfir viðbrögð við jarðskjálfta með starfsmönnum og kennarar með nemendum. Farið yfir eftirfarandi atriði af vef Ríkislögreglustjóra - almannavarnadeild:
Varnir og viðbúnaður vegna jarðskjálfta
Viðbrögð við jarðskjálfta
Krjúpa - Skýla - Halda
Eftir jarðskjálfta

Umsjónarmaður húseignar og tækja skal fara yfir húsið árlega og meta hættu vegna jarðskjálfta vegna hluta eða búnaðar sem getur fallið niður eða hreyfst úr stað.

Athugið húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga er fjöldahjálparmiðstöð verði alvarlegur atburður og því skulu starfsmenn og nemendur halda sig í skólanum. Viðbragðsaðilar koma eins fljótt og auðið er.