Við viljum frið

Alþjóðlegur dagur friðar er haldinn 21. september ár hvert. Dagurinn var fyrst helgaður alþjóðlegum friði árið 1982 og til hans stofnað af Sameinuðu þjóðunum árið áður. Skorað er á þjóðir heims að stöðva átök og hernaðaraðgerðir á þessum degi sem og að minnast dagsins með vitundarvakningu í menntastofnunum og hjá almenningi um málefni er snúa að friði.

MTR er UNESCO-skóli og nemendur og starfsfólk velja á hverju ári nokkra alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna til að vinna með. Alþjóðlegur dagur friðar er einn af þessum dögum í ár og í tilefni hans var dagskrá hjá okkur í vikunni. Nemendur og kennarar komu þá saman í sal skólans og hlýddu á ávarp António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem hann flutti í tilefni friðardagsins og síðan var ljóðalestur þar sem mikilvægi friðar var ítrekað. Þá sagði Ida Semey, kennari skólans, frá þeim áhrifum sem þátttaka í stríði hafði á ömmur hennar og afa. Hafði það ekki aðeins áhrif á sálarlíf þeirra heldur einnig næstu kynslóða. Fleiri kennarar lögðu orð í belg og sögðu frá því hvernig seinni heimsstyrjöldin hafði áhrif á þeirra fjölskyldur, áhrif sem jafnvel voru langvarandi. Vildu með því opna augu nemenda fyrir því að þó okkur þyki stríðin fjarlæg þá hafa þau sannarlega áhrif á fleiri en taka beinan þátt í þeim.

Að lokum völdu nemendur orð sem komu upp í hugann þegar þau hugsuðu um frið og mynduðu þau orðaskýið sem fylgir í myndasafninu með fréttinni. Svo tróð Hamingjubandið upp og flutti nokkur lög þar sem friður er boðaður og stríðsrekstri mótmælt. Var hljómsveitin að þessu sinni skipuð fjórum kennurum og einum nemanda og flutti m.a. lögin Imagine og Blowin´ in the Wind. Myndir