Val í miðannarviku

Leikhólar fengu gjöf í mars 2017 mynd GK
Leikhólar fengu gjöf í mars 2017 mynd GK

Staðnemar hafa fjóra valkosti í miðannarvikunni. Þeir geta kynnst leikfangasmíð, leirmótun og endurvinnslu, klippimyndagerð eða búið til rafrænt kort fyrir ferðamenn. Síðastnefndi áfanginn snýst um að safna myndum og upplýsingum af ýmsu tagi sem gagnlegar eru fyrir ferðamenn sem heimsækja Dalvíkubyggð, Ólafsfjörð og Siglufjörð. Með QR kóða getur fólk síðan sótt afurðina og sett í símann sinn. Þetta gæti til dæmis gagnast erlendum gestum á EcoMedia ráðstefnunni sem MTR skipuleggur næsta haust. Kennarar verða Inga Eiríksdóttir, Bjarney Lea Guðmundsdóttir og fleiri. Í leikfangasmíðinni verður ýmsum hlutum breytt í leikföng með hugmyndaflugi og lagfæringum en annað verður smíðað frá grunni. Leikföngin verða síðan gefin á leikskóla í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Kennari er Kjartan Helgason, smiður. Í áfanga um leir og endurvinnslu verður áhersla á fjölbreytt verkefni hjá Kristínu Önnu Guðmundsdóttur, þroskaþjálfa. Í klippimyndagerð verður afurðin tvívíð verk, gerð úr striga eða hörðum fleti sem úrklippur hafa verið límdar á. Ýmislegt efni getur fengið nýja merkingu eftir því hvert hugarflugið leiðir myndasmiðinn í sköpunarferlinu. Kennari er Martin Holm, myndlistarmaður. Allir áfangarnir gefa tvær einingar.