Upprennandi skáld

Ljósmynd: GK.
Ljósmynd: GK.

Í gær fylltist skólinn af ungum skáldum sem sátu við yrkingar frá morgni og framundir hádegi. Þetta voru nemendur úr 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar sem þarna voru að taka þátt í ljóðasamkeppni. Af þessu tilefni var sett upp myndlistarsýning með verkum nemenda MTR og notuðu ungskáldin verkin sem innblástur fyrir ljóðagerðina.

Þórarinn Hannesson kennari í MTR og forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands leiðbeindi nemendum í ljóðagerðinni en hann er hefur verið ötull liðsmaður ljóðsins um árabil. Ljóðahátíðin Haustglæður er samstarfsverkefni Ljóðasetursins og Ungmennafélagsins Glóa en Grunnskóli Fjallabyggðar og Menntaskólinn á Tröllaskaga koma að framkvæmdinni. Ljóðasamkeppnin er einnig hluti af Barnamenningarhátíð sem stendur yfir í Fjallabyggð í þessari viku. Sjötíu ljóð urðu til í gær og mun dómnefnd vega og meta ljóðaafurðirnar og bestu ljóðin verða verðlaunuð. Úrslit verða kunngjörð í desember.

Það er verðmætt fyrir skólann að fá ungmenni úr byggðarlaginu í heimsókn. Þannig fá þau að kynnast andrúmsloftinu í skólanum og sækjast vonandi eftir skólavist þegar þar að kemur.