Upplýsingafundur um Covid-19

Fundur mynd GK
Fundur mynd GK

Nemendur og starfsmenn MTR eru að skipuleggja viðbrögð sín við Covid-19 faraldri. Í vinnutíma í dag funduðu Lára Stefánsdóttir, skólameistari og Karólína Baldvinsdóttir, kennari sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, með nemendum og gerðu grein fyrir viðbrögðum skólans og svöruðu spurningum nemenda. Lára lagði áherslu á að nú væri mikilvægt að nýta tímann vel, hver nemandi þyrfti að bera ábyrgð á námi sínu í enn ríkari mæli og kennarar væru boðnir og búnir til aðstoðar. Við byggjum að því að þekkja fjarvinnu vegna óveðursdaga ef til þess kæmi að ekki væri hægt að sækja skóla. Enginn afsláttur verður veittur af námi og kennslu og sérstakir frestir til verkefnaskila verða ekki veittir vegna faraldursins. Haldið verður áfram eins og verið hefur og önninni lokið á sama tíma og venjulega. Formbreyting getur hins vegar orðið á samskiptum að því leyti að starfsmenn noti tækni, svo sem Google meet, í stað þess að mæta á vettvang í skólann í Ólafsfirði. Hver starfsmaður tilkynnir nemendum sínum um þann hátt sem viðkomandi hefur á kennslu sinni í tímum á stundatöflu. Nemendur voru hvattir til að halda vel hver utan um annan á þessum óvissutímum og styðja hver annan við að halda áfram og ljúka námi sínu á önninni. Vont væri að missa einingar sem nemendur væru langt komnir með. Karólína fór yfir hegðun Covid-19 veirunnar og bent var á að ungt og hraust fólk veiktist yfirleitt ekki illa. Samfélagið væri að verja þá sem viðkvæmir væru fyrir og hvatti hún alla til að taka virkan þátt í því. Búið er að fresta heimsókn nemenda frá Danmörku til haustsins og verið að skoða með áformaða ferð MTR- nema til Portúgals - hvort hugsanlegt sé að fresta henni líka.