Tólf stúdentar brautskráðir

Stúdentar
Stúdentar
Gleði ríkti við sjöttu útskrift Menntaskólans á Tröllaskaga í dag. Tólf nemendur brautskráðust, jafn margir og síðasta vor. Samtals hafa fjörutíu og sex nemendur útskrifast frá skólanum. Í dag útskrifaðist fyrsti neminn sem hóf framhaldsskólanám sitt við skólann.

Gleði ríkti við sjöttu útskrift Menntaskólans á Tröllaskaga í dag. Tólf nemendur brautskráðust, jafn margir og síðasta vor. Samtals hafa fjörutíu og sex nemendur útskrifast frá skólanum. Í dag útskrifaðist fyrsti neminn sem hóf framhaldsskólanám sitt við skólann.

Adda María Ólafsdóttir, Brynja Sigurðardóttir, Eva Rún Þorsteinsdóttir og Halldór Ingvar Guðmundsson brautskráðust af íþrótta- og útivistarbraut. Atli Tómasson, Ástþór Árnason og Sandra Finnsdóttir brautskráðust af listabraut. Kári Ólfjörð Ásgrímsson, Pétur Þormóðsson og Rebekka Rún Sævarsdóttir brautskráðust af félags- og hugvísindabraut, Finnur Ingi Sölvason af náttúruvísindabraut og Jóhann Már Sigurbjörnsson af viðskiptasviði.

Pétur Þormóðsson þakkaði í ávarpi nýstúdents fyrir að hafa fengið tækifæri til að stunda nám í svo frábærum skóla. Hann byði upp á fjölbreytta möguleika í námi og þátttaka myndlistarnema í sýningum hér heima og erlendis, tónlistarnema í samkeppni á þeim vettvangi, starfsbrautar í stuttmyndakeppni starfsbrauta framhaldsskóla með myndina Bakkabræður og silfur hafsins og fleira slíkt sýndi að nemendur notuðu tækifærin vel.

Lára Stefánsdóttir, sagði í brautskráningarræðu sinni að skóli væri ekki staður til að láta sér leiðast. Fjársjóðsleit gæfi góða raun þegar kæmi að því að velja viðfangsefni því þau ættu að vera í samræmi við styrkleika nemenda og hvað veitti þeim gleði. Lára sagði að eftir því væri tekið hve nærsamfélagið styddi vel við skólann. Sama væri eftir hverju væri leitað, svarið væri ávallt já. Gott samstarf hefði tekist við Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og fleiri samtök almennings. Þá væri samfélagið að mennta einstaklingana í skólanum, Tröllaskagaáfangi væri til dæmis byggður upp að verulegu með þessum hætti. Þar hefðu sjávarnytjar verið þema á vorönn og meðal annars komið fyrirlesarar frá Betri vörum, Ektafiski, Norlandia, Primex, Promens og Rammanum. Þá hefðu nemendur notið frásagnar tveggja sjómanna af skipulagi veiða og vinnslu um borð í togurum. Í fyrsta sinn luku nemar áfanganum Björgunarmaður 1 og veitti Landsbjörg Arnari Má Sigurðarsyni verðlaun fyrir góða frammistöðu þar. Lára afhenti verðlaunin við útskriftina.

Starfið við skólann, þetta þriðja starfsár gekk vel, þótt nokkrir kennsludagar týndust í stórhríðum vetrarins. Í janúar stunduðu 174 nemendur nám í skólanum, 127 í dagskóla og 47 í fjarnámi. Þrettán grunnskólanemar stunduðu nám í inngangsáföngum í fjarnámi og gekk það vel. Hjá Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur kom fram við skólaslitin að kennt hefði verið á sjö brautum í vetur. Fjölmennustu brautirnar hefðu verið félags- og hugvísindabraut með 25% nemenda og listabraut með 22% nemenda. Starfsmenn við skólann voru tuttugu og þrír, þrír fjarkenndu frá öðrum stöðum og tveir voru stundakennarar. 

Fleiri myndir hér.