Ólafsfjörður mynd GK
Reglulega berast kennurum og stjórnendum skólans skilaboð frá nemendum og aðstandendum þeirra þar sem þeim eru færðar þakkir fyrir góða kennslu, frábært skipulag, góða uppsetningu námsefnis og ýmislegt annað sem snertir námið og skólastarfið. Skilaboð sem þessi sýna okkur fram á að við erum á réttri leið og gefa hlýju í hjartað. Hér eru nokkur dæmi frá síðustu önnum.
„Annars þá langar mig sjálfa að þakka svo innilega enn og aftur fyrir ykkar frábæra skóla, frábært fyrirkomulag og góða kennara og aðstoðarfólk allt! Það sem áður virtist ómögulegt er að verða að veruleika - unga konan mín hefur fengið áhuga á námi aftur og verður stúdent um jól. Það hefði aldrei tekist nema fyrir ykkur, ég fullyrði það. Það má færa þakkir í kennarahópinn frá okkur.”
„Þessar síðastliðnu nítján vikur hafa verið bæði viðburðaríkar og yndislegar. Í dag get ég sagt að ég er fullfær um að sinna námi og að ég geti meira að segja gert það með stæl. Ég var mjög hrædd fyrstu daga skólahaldsins en það leið hratt hjá þegar ég áttaði mig á að ég væri í góðum höndum hjá kennurunum mínum og skólanum sjálfum.”
„Þið kennarar mínir í MTR hafið veitt mér nákvæmlega það sem ég þurfti; skilning, stuðning og ekki síst trú á sjálfa mig.”
„Mig langar innilega að koma því að hvað ég er ánægður með að þurfa ekki að taka stór lokapróf, því ég er mjög kvíðinn fyrir prófum og á oft á tíðum til að klúðra hlutum í prófi sem ég hefði alla jafna ekki klúðrað, þannig þið fáið minn stuðning í þessari hugmyndafræði.”
„Vá ég hef nú lært margt í þessum áfanga. Kannski hefur stærsti lærdómurinn fyrir mig, sem er að setjast á „skólabekk" aftur komin yfir fertugt, verið sá að ég get þetta. Ég er ekki vonlaust keis. En mikið svakalega er þetta búið að vera gaman ég sit og bíð eftir næstu verkefnum melti þau yfir vikuna og nýt þess að vinna þau á kvöldin eftir langan vinnudag.”
„Ég er svo sátt við þennan áfanga og frammistöðuna hjá mér að ég er búin að skrá mig í næsta áfanga og hlakka ég mikið til næsta veturs.”
„Ég er ekki lengur bara kennitala á blaði. Ég hef ekki einu sinni hitt kennarana mína í eigin persónu en samt hefur hver og einn ykkar séð mig, hlustað á mig og hvatt mig áfram.”
„MTR hefur gefið mér nýtt hugarfar; jákvæðni, sjálfstraust og von. Ég er svo þakklát fyrir að hafa valið þessa leið. Þið hafið kennt mér að ég get, að það sé í lagi að mistakast og prófa aftur. Takk fyrir að vera meira en bara kennarar. Þið eruð innblástur.”
Að lokum er tilvitnun í viðtal við Bríeti Ísis Elvar sem birtist á vefmiðlinum vísi.is. Hún gekk í Korpúlfsskóla, Laugalækjarskóla, fór í FÁ og MH en útskrifaðist loks með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þar fannst henni hún loksins fá rými til að læra meðfram því að sinna tónlistinni. „Ég á þeim skóla mikið að þakka.“