Tækniskólagestir

Gestir úr Tækniskólanum í heimsókn mynd GK
Gestir úr Tækniskólanum í heimsókn mynd GK

Þrír sérfræðingar úr Tækniskólanum hafa notað daginn til að kynna sér starfið í MTR. Þetta eru Guðrún Randalín Lárusdóttir, skólastjóri Upplýsingatækniskólans, Nanna Traustadóttir, verkefnisstjóri K2 stúdentsbrautarinnar og Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningarmála. Þau segjast hafa komið til að læra um nútímalega kennsluhætti og skipulag í skólastarfinu. Lára skólameistari sýndi skólann og sagði frá starfinu en þremenningarnir hittu líka  kennara og nemendur. Þórarinn útskýrði til dæmis hvernig við bærum okkur að við vendikennslu og hvernig vinnutímafyrirkomulagið virkaði. Nemendur greindu m.a. frá skipulagi, félagslífi og framtíðaráformum sínum. Gestirnir sýndu áhuga á samtvinnun áfanga og óhefðbundnum kennsluháttum. Þau segja að Tækniskólinn sé að taka skref til framtíðar, til dæmis á K2 brautinni, aukin áhersla sé á að vinna í lotum og þjálfa nemendur í að vinna verkefnamiðað. Námið er skipulagt í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og leiðandi tæknifyrirtæki.  Lokaverkefni tengjast kjarnagrein á önn og eru skipulögð með þátttöku og stuðningi atvinnufyrirtækja á borð við CCP og Stúdíó Sýrland. Gestirnir höfðu í lokin orð á því að MTR virtist vera lýðræðislegur vinnustaður þar sem kennarar nytu mikils frelsis.