Suðrænir gestir

Í Hrafnavogum mynd GK
Í Hrafnavogum mynd GK

Hópur framhaldsskólanema frá Tías á Lanzarote og PT skólanum á Ítalíu eru gestir nemenda MTR næstu sjö daga. Skólarnir eru í samstarfsverkefni um valdeflingu og sjálfbærni. Það eflir nemendur dreifðra byggða í því að finna leiðir til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Gestirnir eru 28, tuttugu og þrír nemendur og fimm kennarar. Í móttökunefndinni eru 20 nemendur og þrír kennarar.

Í morgun var skipt í hópa og farið í myndarallý um Ólafsfjörð. Þemað var „hvað er til staðar og hvað vantar í bænum?“ Tilgangurinn að kynnast staðnum og taka myndir. Þær eru hráefni til listrænnar sköpunar og frásagna. Gerð eru tveggja til þriggja mínútna löng vídeómyndbönd. Síðdegis heimsóttu gestirnir Pálshús og skoðuðu þar ljósmyndasýningu sem sett var upp í tilefni 90 ára afmælis útgerðar Magnúsar Gamalíelssonar. Á morgun heimsækir hópurinn Siglufjörð og skoðar meðal annars Síldarminjasafnið.

Hópur nemenda og starfsmanna MTR heimsótti Lanzarote í febrúar í fyrsta áfanga verkefnisins. Móttökur þar voru einstaklega góðar og verður lengi í minnum haft það sem nemendur okkar sáu og reyndu á eynni. Þar þótti heimsóknin tíðindum sæta og var talsvert fjallað um hana í fjölmiðlum.