Starfsfólkið stóð sig vel í Lífshlaupinu

Starfsfólk á gönguskíðum
Starfsfólk á gönguskíðum

Menntaskólinn á Tröllaskaga er Heilsueflandi framhaldsskóli og hefur sett sér metnaðarfulla heilsu- og forvarnarstefnu sem miðar að því að bæta heilsu og líðan allra þeirra sem starfa og nema við skólann. Lögð er áhersla á heilbrigða lífshætti sem leiða til sjálfsvirðingar, sjálfsstjórnar og jákvæðrar lífsýnar og að hvetja nemendur og starfsfólk til virkrar þátttöku.

Undanfarin ár hefur starfsfólk skólans tekið þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins, heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, og er það liður í að auka daglega hreyfingu þeirra sem starfa við skólann. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta.

Vinnustaðakeppnin stóð í þrjár vikur, frá 7. - 27. febrúar, og var MTR í flokki vinnustaða með 10 - 29 starfsmenn. Starfsmannahópurinn hefur smám saman fikrað sig upp á við milli ára og endaði nú í 44. sæti af um 140 vinnustöðum sem tóku þátt í þessum flokki. Þátttökuhlutfall innan skólans var 63% og fer vaxandi. Starfsfólk MTR stundar greinilega fjölbreytta hreyfingu því alls voru um 30 tegundir hreyfingar skráðar. Ganga var mest stunduð, síðan komu skíðin, þá sund og síðan líkamsrækt, crossfit og yoga.