Standa upp og hrista skankana

Kennarar gera æfingar í Hrafnavogum, nemendur fylgjast með. Ljósm. GK.
Kennarar gera æfingar í Hrafnavogum, nemendur fylgjast með. Ljósm. GK.

Íþróttafélagið Söruklúbburinn hefur hrundið af stað átaki hjá starfsfólki MTR sem miðar að því að standa upp frá tölvunni og gera æfingar og koma blóðinu á hreyfingu. Starfsfólk er dreift um allar trissur og sjaldnast í húsi öll í einu og því er hægt að taka þátt í fjarfundi. Í gær gerðu nokkrir kennarar æfingar í Hrafnavogum, opna rými skólans og sum gerðu æfingarnar heima. Nemendur fylgdust með en tóku ekki þátt en vonandi breytist það með tímanum. MTR er heilsueflandi framhaldsskóli og þetta uppbrot á deginum smellpassar inn í þá hugmyndafræði. Næsta æfing hjá Söruklúbbnum var kl. 11 í dag í Hrafnavogum og á Internetinu og stefnt er að daglegum æfingun á þessum tíma.

Mannskepnan er ekki gerð til að sitja á rassinum eins og kunnugt er. Því er öllum sem sitja við vinnu nauðsynlegt að standa upp öðru hvoru, teygja úr sér og hrista skankana. Slíkar æfingar geta komið í veg fyrir stoðkerfisvandamál sem eru að verða óþarflega útbreiddur kvilli á okkar tímum. Við í MTR hvetjum til hreyfingar.