Stafræn sagnamennska – erlent samstarf

Ólafsfjörður mynd GK
Ólafsfjörður mynd GK

MTR hefur fengið Nordplusstyrk að upphæð fjórar milljónir króna til samstarfs við Tækniskólann EUC í Næstved og Köge á Sjálandi. Málið snýst um stafræna sagnamennsku og samskipti ungs fólks í fámennum samfélögum á Íslandi og í Danmörku. Viðfangsefnið er að nota upplýsingatækni til að segja sögur á netinu. Nemendur skólanna eiga það sameiginlegt að koma flestir úr tiltölulega dreifðum byggðum. Þeir munu kanna sagnaarfinn í hvoru landi um sig og leggja sérstaka áherslu á norræna goðafræði og sögur um dísir og tröll. Nemendur munu líka semja og segja eigin sögur. Á þennan hátt kynnast þeir menningararfi eigin lands og samstarfslandsins ásamt því að æfa sig að nota mismunandi tæki og tól til að segja sögur með aðstoð stafrænnar tækni. Áformað er að tuttugu og fimm manna hópur frá Danmörku komi á Tröllaskaga á haustönn og jafn margir nemendur MTR sæki Sjáland heim á vorönninni. Á meðan á heimsóknunum stendur semja nemendurnir saman nýjar sögur sem þeir segja með aðstoð stafrænu tækninnar sem þeir alast upp með. Ida Semey, tungumálakennari annaðist umsóknarferlið.