Sjö nýir áfangar á vorönn

Vetrardagur í Ólafsfirði. Mynd LS
Vetrardagur í Ólafsfirði. Mynd LS

Sjö nýir áfangar á vorönn

Alls eru 62 áfangar í boði hjá okkur á vorönn og eru þeir allir fullsetnir. Flestir þeirra hafa verið kenndir áður þó en innihald þeirra breytist gjarnan milli ára í takt við tíðarandann og tæknina. En þar sem kennarar skólans eru með frjóa hugsun og sískapandi eru líka alltaf einhverjir nýir áfangar í boði á hverri önn. Að þessu sinni eru þeir sjö talsins í hinum ýmsu greinum, allir spennandi og áhugaverðir.

Fyrst má nefna tvo áfanga á þriðja þrepi, annar þeirra er í ensku þar sem viðfangsefnið er breskur húmor og menning og hinn í sögu þar sem sjónum er beint að sögu fornaldar með sérstaka áherslu á Forn-Grikki og Rómaveldi. Á öðru þrepi eru þrír sérlega spennandi nýir áfangar. Þar er um að ræða áframhald á erlendu samstarfsverkefni sem kallast Að brúa huga og menningu gegnum sögur og munu þeir nemendur sem sitja þann áfanga m.a. fara í ferð til Finnlands. Listáfangi þar sem nemendur fara í fylgd kennara til Gautaborgar til að kynna sér sænska menningu, skoða listasöfn og vinnustofur auk þess að ræða við listafólk um verk þeirra og svo er það áfanginn Hlaðvörp - hlustun og hugsun sem tengist félagsgreinum. Þar verður hlýtt á fjölbreytt hlaðvörp til að öðlast innsýn, þekkingu og skilning á hinum ýmsu málefnum og fræðasviðum. Málefnin síðan ígrunduð og unnin verkefni út frá innihaldi hlaðvarpanna. Að lokum eru það tveir nýir áfangar á fyrsta þrepi. Sá fyrri kallast Kvikmyndir frá ýmsum löndum og þar eru skoðaðar kvikmyndir á mismunandi tungumálum og hvernig menningarmunur birtist í kvikmyndum frá ólíkum menningarsvæðum. Einn áfangi bætist síðan í flóru íþróttagreinaáfanga og snýst hann um einstaklingsíþróttir. Þar er farið í sögu, grunnreglur og þjálfun byrjenda í greinum eins og badmintoni, fimleikum, golfi og sundi.

Allir þessu nýju áfangar eru valáfangar og bætast við mikið úrval slíkra svo hver og einn nemandi getur aðlagað sitt nám sem mest að sínum áhugasviðum og framtíðarplönum.