SAMNOR ræðir samstarf skólastiga

SAMNOR
SAMNOR

Skólamenn á Norðausturlandi eru almennt sammála um að einstakar aðstæður séu á svæðinu til nýbreytni í samstarfi skólastiga. Þetta kom fram á samráðsfundi framhaldsskólanna á svæðinu fyrir helgina. Til hans var boðið sveitarstjórnarfólki ásamt stjórnendum grunnskóla, háskóla og símenntunarmiðstöðva. Frummælendur fjölluðu um efnið af sjónarhóli grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og símenntunarmiðstöðva. Pallborðsumræðum með þátttöku frummælenda stýrði Lára Stefánsdóttir, skólameistari MTR. Hún segir samtalið hafa verið gagnlegt og skýran samstarfsvilja mikilsverðan.

Rætt var um sveigjanleg skil milli grunn- og framhaldsskóla og kosti þess að nemendur geti hafið nám í einstökum greinum fyrir útskrift úr grunnskóla eða útskrifast fyrir lok 10. bekkjar. Einnig var rætt um námsmat og hvaða upplýsingar felist í því. Á mörkum háskóla og framhaldsskóla var rætt um innihald stúdentsprófs og mikinn sveigjanleika í námsframboði framhaldsskóla eftir breytingar á námsskrá. Menn veltu líka fyrir sér kröfum til háskóla um að skilgreina með skýrum hætti þörf á undirbúningi fyrir háskólanám. Rætt var um samstarf framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva, raunfærnimat, aðlögun brotthvarfsnemenda að námi og sértækt nám í tengslum við vinnumarkaðinn.

Samstarfsverkefni milli skóla og skólastiga voru rædd og lýstu menn miklum áhuga á samvinnu við þróun skólastarfs á Norðausturlandi. Framhaldsskólarnir í SAMNOR eru Framhaldskólinn á Húsavík, Framhaldskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri,  Menntaskólinn á Tröllaskaga og Verkmenntaskólinn á Akureyri

SAMNOR