Skólameistari stúdentar og aðstoðar skólameistari
Þann 20. desember brautskráðist 31 nemandi frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn. Hafa nú alls 709 nemendur brautskráðst frá skólanum frá því hann var stofnaður árið 2010. Útskriftarnemarnir að þessu sinni koma frá tólf stöðum á landinu, flestir af höfuðborgarsvæðinu og aðeins einn staðnemi var í hópnum. Sex nemanna sáu sér fært að vera við athöfnina en líkt og undanfarin ár var hún einnig send út á fésbókarsíðu skólans svo allir útskriftarnemar og fjölskyldur þeirra gætu notið stundarinnar.
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni og sagði frá starfinu á önninni. Í máli hennar kom m.a. fram að tæplega 560 nemendur stunduðu nám við skólann í haust, flestir á kjörnámsbraut og starfsmenn við skólann voru 29. Mikill meirihluti nemenda eru fjarnemar sem búsettir eru vítt og breitt um landið og þó nokkrir erlendis. Líkt og undanfarin ár voru mörg erlend verkefni í gangi. Erasmus- og Nordplus-styrkir væru fastur liður í skólastarfinu sem gerðu nemendum og kennurum kleift að fara í námsferðir og einnig að taka á móti nemendahópum erlendis frá. Á önninni fór hópur nemenda til að mynda til Eistlands og nemendaráð skólans heimsótti nemendaráð tveggja framhaldsskóla í Kaupmannahöfn. Áframhald verði á slíkum samstarfsverkefnum því þau séu sérstaklega lærdómsrík. Einnig sagði Jóna Vilhelmína frá því að MTR væri UNESCO-skóli og lögð væri áhersla á að flétta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í allt starf hans. Helstu áhersluatriði til þessa væru mannréttindi, umhverfismál og friður. Árangur af þessu starfi skilaði sér nú á haustdögum í Evrópsku nýsköpunarverðlaununum í kennslu sem skólinn hlaut fyrir verkefnið „Heimsmarkmiðin í öllu skólastarfi - lýðræðislegt samfélag í framkvæmd“. Verðlaunin voru afhent í Brussel í byrjun desember.
Lára Stefánsdóttir skólameistari lagði í ávarpi sínu áherslu á traust og mikilvægi þess fyrir alla aðila hvort sem er í fjölskyldum, skólum, vinnustöðum, stjórnkerfinu eða hvar annars staðar sem er. Með trausti milli aðila er svo mikið auðveldara að leysa þau mál sem upp koma og þó fólk sé ekki sammála um leiðir þá er hægt koma sér saman um lausn sem allir geta verið sáttir við ef traust ríkir milli aðila. Hún hafi oft upplifað þetta hjá kennurum skólans. Ástæðan fyrir því að hún vildi tala um traust í þessu ávarpi væri sú að einn kennari skólans, hún Ida Semey, sem hefur verið drifkrafturinn í erlendum verkefnum skólans, hefur nefnt það oftar en einu sinni að ein ástæðan fyrir góðu gengi hans er að hér ríki traust. Traustið sé þó ekki sjálfsagt, bætti Lára við, og það hafi verið heilmikil vinna í upphafi að koma skólanum á fót, vinna honum traust og sýna fram á að hægt væri að treysta því að námið í skólanum væri góður grunnur undir frekara nám og gagnaðist vel í lífi og starfi. Þetta hefur tekist og vinsældir skólans aldrei meiri en nú. Þökk sé góðu skipulagi, öflugri símenntun starfsfólks og ekki síst því trausti sem ríkir. Nemendur finna fyrir trausti frá kennurum og kennarar og starfsfólk frá skólameistara og öðrum stjórnendum. Og nemendur mæla með skólanum á ólíklegustu stöðum eins og t.d. á Beauty tips og bland.is !