Róið og sigið í útivistinni

Kajak róður
Kajak róður

Nemendur í áfanganum útivist í snjóleysi ÚTIV2HR05, fengu um helgina tækifæri til að æfa sig í nýja turninum sem björgunarsveitin Strákar á Siglufirði reisti sér í vor. Turninn er á bak við einn snjóflóðavarnargarðinn ofan við byggðina. Hann er tíu metra hár. Þarna fengu nemendur að kynnast sigi með öllum þeim búnaði sem nauðsynlegur er. Það var ákveðin áskorun að halla sér aftur á brún turnsins og setja allt sitt traust á búnaðinn, en þegar það var komið var gaman að láta sig síga niður og flestir nemendur fóru nokkrar ferðir.

Önnur æfing í þessar lotu var kajakróður. Fyrir æfinguna fengu nemendur kynningu á kajaksportinu og kennarar fóru vandlega yfir öryggisatriði. Síðan var róið af stað út á Siglufjörðinn þar sem meðal annars voru skoðuð gömul skipsflök. Veður var með besta móti og allir skemmtu sér vel yfir sögum Gests kennara, sem er margfróður um þetta svæði. Þá var stokkið í sjóinn með tilheyrandi gleðiópum. Þessir tveir æfingadagar tókust vel og fara í reynslubanka nemenda.  Myndir