Rækt við listafólk Fjallabyggðar

Ave Sillaots og Jón Þorsteinsson mynd GK
Ave Sillaots og Jón Þorsteinsson mynd GK

Líkt og við höfum áður sagt frá á Menntaskólinn á Tröllaskaga orðið ágætt safn listaverka. Flest eru verkin eftir listafólk af svæði skólans og reglulega eru settar upp sýningar í sal skólans á verkum listafólks sem búsett er í Fjallabyggð. Er það gert til að krydda menningarlífið í skólanum og ekki síður til að vekja athygli á starfandi listafólki sem býr í nágrenni hans. Tónlistarfólk úr Fjallabyggð er einnig kallað til við útskriftir til að sjá um tónlistarflutning auk þess að koma fram á fleiri viðburðum í skólanum.

Frá árinu 2011 hefur bæjarlistamaður Fjallabyggðar verið útnefndur árlega og hafa 15 einstaklingar auk Leikfélags Fjallabyggðar hlotið nafnbótina. Obbi þeirra útnefndu starfar að myndlist og er gaman að segja frá því að allflestir hafa sýnt verk sín í skólanum á undanförnum árum og í safni skólans eru verk þeirra flestra. Einnig má geta þess að þrír bæjarlistamannanna starfa, eða hafa starfað við skólann, og þrír hafa numið við hann.

Má því segja að auk þess að veita öflugt listnám, og leggja þannig grunninn að möguleikum nemenda á listasviðinu, ræktar skólinn gott samband við listafólk á svæðinu og eykur sýnileika þess.