Ráðagóðir nemendur

Mynd Bókasafn Fjallabyggðar Siglufirði
Mynd Bókasafn Fjallabyggðar Siglufirði

Nokkrir nemendur skólans vöktu athygli fyrir dugnað sinn og iðni við námið á Bókasafni Fjallabyggðar á Siglufirði í dag. Hefðbundið skólastarf í Ólafsfirði féll niður vegna óveðurs. Ótíðin hefur raskað skólastarfi talsvert í upphafi annarinnar sem kennd er við vorið. Nemendur og kennarar sem eiga heima innan við Ólafsfjarðarmúla hafa aðeins komist í skólann sex af tólf kennsludögum það sem af er og staðan er ekki mikið betri hjá þeim sem búa á Siglufirði. Kennarar gera sitt besta til aðstoða nemendur og nota til þess ýmsa tækni. Hópurinn á myndinni er til dæmis að læra íslensku og nýtur við það leiðsagnar Margrétar Laxdal, kennara síns, sem stödd var heima hjá sér á Dalvík. Það er gleðilegt að sjá þetta framtak og að nemendur eru að taka til sinna ráða. Þeir ætla ekki að láta ótíðina spilla námsframvindunni.