Óveðursdagar

Ljósmynd: GS.
Ljósmynd: GS.

Í morgun var vegurinn um Ólafsfjarðarmúla lokaður vegna snjóflóðahættu. Nemendur og kennarar sem búa á Akureyri og Dalvík komust því ekki í skólann í morgun. Leiðin opnaðist um kl. 10 og óvissustigi aflétt kl. 11:17. Hins vegar er greiðfært til Siglufjarðar og því er eðlilegt skólahald þó hluta nemenda og kennara hafi vantað í byrjun dagsins.

Menntaskólinn á Tröllaskaga er á einu snjóþyngsta svæði landsins. Þær leiðir til skólans sem ekki eru um jarðgöng liggja um brattar fjallshlíðar þar sem snjóflóðahætta getur skapast. Skólinn hefur sett sér vinnureglur sem gilda þegar skólahald raskast vegna veðurs og ófærðar. Slíkar aðstæður voru s.l. mánudag en þá var óveðursdagur samkvæmt vinnureglum skólans. Það er þegar skólaakstur fellur niður bæði frá Dalvík og Siglufirði og liggur ákvörðunin um það hjá skólabílstjórunum. Skólabílarnir taka á sig meiri vind en fólksbílar og einhverjir gætu komist leiðar sinnar en skólinn ákveður samt sem áður að fella niður hefðbundið skólahald. Þetta er til þess að koma í veg fyrir hættu og óvissu hjá nemendum sem margir hverjir eru nýir og óreyndir bílstjórar.

Á óveðursdögum eru verkefnaskil óbreytt og nemendur og kennarar vinna heima og hafa samskipti á netinu. Hefðbundið skólahald byrjar ekki síðar á óveðursdegi þó aðstæður batni enda eiga margir um langan veg að fara og erfitt að ná til allra starfsmanna og nemenda og skipuleggja akstur.

Góð tengsl eru milli skólans og Vegagerðarinnar og snjóflóðaeftirlits Veðurstofunnar og að auki er björgunarsveitarfólk á meðal starfsmanna. Fólk er almennt á varðbergi ef aðstæður breytast á skóladegi og hætta skapast á að leiðir lokist. Í slíkum tilfellum eru nemendur og starfsfólk strax sent heim.