Nemendur sýna samstöðu

Nemendur stóðu upp og gengu út.
Ljósmynd: GÞ.
Nemendur stóðu upp og gengu út.
Ljósmynd: GÞ.

Nemendur MTR lögðu niður störf og gengu út kl. 11 í morgun. Með þessu vilja þau sýna nemendum MH stuðning en þar gengu nemendur út úr kennslustundum og söfnuðust saman fyrir utan skólann til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning en einnig til að mótmæla aðgerðarleysi skólastjórnenda þegar upp koma kynferðisbrotamál innan skólannna. Sama á við um nemendur fleiri framhaldsskóla á landinu og á Akureyri gengu nemendur MA og VMA út og söfnuðust saman í Lystigarðinum.

Engar samræmdar verklagsreglur hafa verið til um viðbrögð stjórnenda framhaldsskóla þegar upp koma kynferðisbrotamál innan veggja skólanna og hefur Sam­band ís­lenskra fram­halds­skóla­nema gagnrýnt mennta­málaráðherra og ráðuneytið vegna þessa. Í júní 2021 skilaði starfshópur mennta- og menningarmálaráðherra tillögum sínum um markvissari kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum. Þar var m.a. lagt til að ráðuneytið semji miðlæga viðbragðsáætlun sem skólar geti tekið upp eða aðlagað að sínum starfsháttum.

Í morgun barst skólastjórnendum framhaldsskóla bréf frá ráðherra þar sem hann greinir frá tveimur skrefum sem tekin verða á næstu dögum til úrbóta. Annars vegar mun ráðuneytið kynna fyrirmynd að viðbragðsáætlun sem skólarnir geta haft til hliðsjónar við gerð á eigin viðbragðsáætlun. Hinsvegar mun ráðuneytið boða til vinnufundar með helstu hagaðilum til að rýna áætlunina og eiga gagnvirkar umræður um helstu álitamál, eins og segir í bréfinu. Jafnframt segir ráðherra mikilvægt að rödd nemenda heyrist í þeirri vinnu sem fram undan er og þeirra sjónarmið verði höfð til hliðsjónar. Markmiðið sé að sjá til þess að allir nemendur upplifi öryggi og að tekið sé á málum af festu.