Nemendur grunnskólans yrkja í MTR

Ljóðagerð mynd GK
Ljóðagerð mynd GK

Í rúman áratug hefur ljóðahátíðin Haustglæður farið fram í Fjallabyggð og er hún samstarfsverkefni Ljóðaseturs Íslands og Ungmennafélagsins Glóa. Ávallt hefur verið lögð áhersla á að virkja börn og ungmenni á þessari hátíð, m.a. hefur ljóðasamkeppni milli nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar verið fastur liður í dagkránni. Undanfarin ár hafa listaverk úr listaverkasafni Fjallabyggðar verið notuð sem kveikjur að ljóðum í þessari keppni. Hafa nemendur komið í fundarsal ráðhússins á Siglufirði, virt fyrir sér hin ýmsu  listaverk og síðan ort út frá þeim. Þar sem eldri deild GF er nú til húsa í Ólafsfirði þótti upplagt að nemendur kæmu í MTR í þessum erindagjörðum í ár því þar er nóg af listaverkum, bæði í eigu skólans sem og verk nemenda. Nemendur 8. bekkjar riðu á vaðið í vikunni og síðan kom 10. bekkur og loks sá 9. Fengu nemendur smá leiðsögn um ljóðagerð í upphafi en síðan var hafist handa við að yrkja. Gekk það misjafnlega en afraksturinn varð nær 70 ljóð og nú bíður það dómnefndar að velja þrjú þau bestu. Frá upphafi hafa höfundar rúmlega 30 ljóða verið verðlaunaðir og hallar þar töluvert á annað kynið því 26 þessara höfunda eru stúlkur en aðeins sex strákar!   Myndir