Nemendaþjónusta MTR

Nemendur vinna sjálfstætt í vinnutíma. Ljósm. SMH.
Nemendur vinna sjálfstætt í vinnutíma. Ljósm. SMH.

Sigríður Ásta Hauksdóttir náms - og starfsráðgjafi og Guðrún Þorvaldsdóttir iðjuþjálfi halda utan um Nemendaþjónustu MTR þetta skólaár en samhliða er starfandi stoðþjónustuteymi við skólann. Hlutverk teymisins er m.a. að finna leiðir til að mæta námslegum styrkleikum, vera kennurum til ráðgjafar um kennslu ásamt samstarfi við grunnskóla. Auk Sigríðar og Guðrúnar eiga sæti í teyminu Hólmar Óðinsson umsjónarmaður starfsbrautar, Birgitta Sigurðardóttir kennari og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari og áfangastjóri.

Sigríður og Guðrún eru með sérstaka skipulags- og verkefnatíma alla mánudagsmorgna frá 8:10-9:10 fyrir dagskólanemendur. Þar fara nemendur yfir verkefni vikunnar sem öll opna á mánudagsmorgnum, skipuleggja sig fyrir vikuna og fá stundum stutt verkefni eða kynningu á námstólum sem geta nýst vel í námi. Þessir tímar byrjuðu á síðustu vorönn og sönnuðu strax gildi sitt, m.a. með snemmtækum inngripum fyrir þá nemendur sem stóðu höllum fæti eða voru stirðir til náms. Almennt eru nemendur ánægðir með þessa tíma og nýta þá vel.

Allir nemendur skólans eru skráðir í áfangann Nemendaþjónusta H-21 inni á Moodle. Þar inni má nálgast hagnýtar upplýsingar, bjargráð og panta tíma í náms- og starfsráðgjöf.

Þar má meðal annars finna upplýsingar um tímastjórnun, skipulag og námstækni þar sem sérstök áhersla er á stafræna námstækni og hagnýt tól sem nýta má í námi. Einnig áhugasvið og ýmiss konar tilfinningalegar áskoranir. Nemendur geta skoðað efnið hvenær sem þeim hentar. Einnig geta nemendur pantað sér tíma hjá Sigríði náms- og starfsráðgjafa með hraðbókun í gegnum Koalender.  Þannig fá þeir sjálfkrafa hlekk fyrir myndviðtal í gegnum Google meet. Þetta er glæný viðbót við þjónustuna sem stendur öllum nemendum skólans til boða, hvort sem þeir eru í fjarnámi eða staðnámi.