Nemendastýrður áfangi um umhverfismál

Umhverfisnefnd mynd HF
Umhverfisnefnd mynd HF

Stofnuð hefur verið umhverfisnefnd í skólanum. Í henni eru fjórir nemendur sem hafa í áfanganum UMHV2NÁ03 metið stöðu umhverfismála í skólanum og nærsamfélaginu og ætla síðan að útbúa aðgerðaáætlun um úrbætur.  Ákveðið hefur verið að leggja áherslu á loftslagsmál.

Stefnt er að gróðursetningu trjáa í samstarfi við Skógræktarfélagið og Skíðafélagið. Verkefnið er í vinnslu en stefnt að framkvæmdum í næstu viku. Það haustar að og bráðum gæti fallið snjór í Ólafsfirði. Þetta verkefni snýst um að kolefnisjafna.

Nefndin hefur þegar sett upp fataslá í skólanum þar sem nemendur og starfsmenn setja föt sem þeir eru hættir að nota og aðrir geta nýtt sér. Einnig er búið að setja upp Instagrammsíðu  til að miðla upplýsingum um það sem gert er. https://www.instagram.com/umhverfisnefndmtr/  Fylgjendur eru enn sem komið er aðallega nemendur skólans en stefnt er að því að fylgjendur verði 500.

Þá er á dagskrá að tala við stjórnendur sveitarfélagsins og fá upplýsingar um hvað þeir eru að gera til að stuðla að heilbrigðara umhverfi. Nefndin hefur hug á að hvetja íbúa í Fjallabyggð til að vera duglegri að flokka sorp. Fjórmenningarnir hafa séð að sumir flokka alls ekki. Umhverfisnefndin hefur hug á að komast að á útvarpsstöðinni Trölla og ræða þetta mál. Afla fyrst upplýsinga og koma boðskapnum síðan til skila. Meðal annars ætla þau að kanna hvort ráðamenn í kjörbúðinni í Ólafsfirði og á Olís eru tilbúnir til að setja upp flokkunartunnur fyrir viðskiptavini.

Áfanginn er á öðru þrepi. Kennarar eru Karólína Baldvinsdóttir og Unnur Hafstað.