Myndlist mánaðarins – Lundabúðin 2

Örlygur og Tóti hengja upp myndirnar mynd GK
Örlygur og Tóti hengja upp myndirnar mynd GK

Örlygur Kristfinnsson setti í sumar upp sýninguna Lundabúðin í Ytrahúsinu á Siglufirði. Sýningin var vel sótt. Nokkrar myndir á þessari sýningu mánaðarins í Hrafnavogum sýndi hann einnig þar en aðrar eru nýjar af nálinni og hafa ekki verið sýndar áður.

Örlygur fæddist 21. mars 1949 á Siglufirði. Stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands  1969–´73. Var myndlistarkennari í 20 ár á Siglufirði og hélt þar myndlistarsýningar af og til. Stóð að stofnun Félags áhugamanna um minjasafn árið 1989, leiddi uppbyggingu og hönnun Síldarminjasafns Íslands og starfaði sem safnstjóri þess árin 1996 – 2016. Má með sanni lýsa safninu sem einu stóru og margslungnu listaverki þar sem hvert smáatriði fær þó að njóta sín og sagan verður ljóslifandi.

Hann er höfundur nokkurra bóka sem tengjast sögu Siglufjarðar. Kom að uppbyggingu Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar og hefur verið virkur í kvæðamannafélaginu Rímu síðustu ár. Rekur einnig vinnustofu og gallerí í Ytrahúsinu við Aðalgötu á Siglufirði. Örlygur var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2011.