Myndlist í september

Ákveðnir veggir í Hrafnavogum, nýjum og glæsilegum sal skólans, eru fráteknir fyrir listaverk sem skipt er um mánaðarlega. Oftast er einstökum listamönnum af nærsvæði skólans boðið að sýna þar verk sín en í þessum mánuði voru verkin sótt í listaverkasafn Fjallabyggðar. Yfirskriftin er: „Afstrakt eða Abstrakt“ - en sýningin er helguð óhlutbundnum verkum. Hún samanstendur af fimm verkum úr höfðinglegri gjöf hjónanna Arngríms Ingimundarsonar og Bergþóru Jóelsdóttur til Siglufjarðarkaupstaðar árið 1980. Með henni vildu hjónin sýna Siglfirðingum þakklæti fyrir stuðning þeirra við foreldra Arngríms eftir að þau brugðu búi í Fljótunum vegna heilsubrests og fluttust til Siglufjarðar. Í heild gáfu Arngrímur og Bergþóra Siglufjarðarkaupstað 127 verk eftir marga af frestu listmálurum þjóðarinnar á tuttugustu öld. Er þessi einstaka gjöf grunnurinn að listaverkasafni Fjallabyggðar í dag.

Verkin sem til sýnis eru í Hrafnavogum núna eru, auk þess að auðga tilveru fólks í skólanum, notuð sem námsefni í grunnáfanga í myndlist. Óhlutbundin verk eru einmitt til umfjöllunar þar þessar vikurnar og á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Bergþór Morthens myndlistarkennara ræða um verkin á sýningunni við nemendur.