MTR hlýtur Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu 2025

MTR mynd GK
MTR mynd GK

Í vikunni tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvaða aðilar hlytu Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu (European Innovative Teaching Award – EITA) árið 2025. Ýmis áhugaverð verkefni eru verðlaunuð þar á meðal verkefni MTR „Heimsmarkmiðin í öllu skólastarfi – lýðræðislegt samfélag í framkvæmd“ sem er heildræn og skapandi nálgun skólans að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í allt skólastarf. Verður verkefnið fulltrúi Íslands á sérstakri verðlaunahátíð sem haldin verður í Brussel dagana 8.-9. desember.

Verðlaun þessi eru hluti af árlegri viðurkenningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á verkefnum sem skara fram úr á sviði kennslu og náms. Með þeim leitast framkvæmdastjórnin við að heiðra kennara sem nýta nýstárlegar, gagnvirkar og aðgengilegar aðferðir til að ryðja brautina fyrir bjartari framtíð komandi kynslóða. Áhersla framkvæmdastjórnarinnar í ár var „Virk borgaravitund“ og að mati óháðrar dómnefndar hefur MTR náð sérstaklega góðum árangri á því sviði með því að virkja starfsfólk og nemendur, meðal annars í Erasmus+ verkefnum.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Reykjavík þann 15. október nk. þar sem fulltrúar MTR munu veita verðlaununum móttöku.

Frá árinu 2022 hefur MTR verið virkur UNESCO-skóli og unnið markvisst að því að gera heimsmarkmiðin að leiðarljósi í námskrá, kennslu, skólamenningu og daglegum samskiptum. Verkefnið byggir á þeirri hugsjón að menntun eigi ekki aðeins að miðla fræðilegri þekkingu, heldur móta meðvitund, siðferðiskennd og virkni ungs fólks sem borgara í lýðræðislegu og sjálfbæru samfélagi. Það er Ida Semey, kennari skólans, sem hefur dregið vagninn í þessari vinnu með eljusemi, áræði og óbilandi trú á vegferðinni sem nemendur sem kennarar hafa tekið virkan þátt í og notið góðs af.

Á þessari slóð má sjá dæmi um það hvernig unnið hefur verið með heimsmarkmiðin í MTR undanfarin ár:

https://sites.google.com/mtr.is/mtr-erasmus-heimsmarkmid/heim?authuser=0

Hér er slóð á umfjöllun um verkefnið á síðu Evrópusambandsins:

https://innovative-teaching-award.ec.europa.eu/projects/sustainable-development-goals-all-aspects-school-life-democratic-society-practice_en