Nokkrir nemendur á jólakvöldi
Stjórn nemendafélagsins Trölla hefur haldið uppi öflugu félagslífi það sem af er vetri. Fyrsta verkefnið var nýnemadagurinn, þar sem nýir nemendur skólans voru boðnir velkomnir, haldin hafa verið spilakvöld, bíókvöld og lan-kvöld að ógleymdum þemadögunum þar sem nemendur og kennara koma klæddir í takti við áskoranir nemendaráðs. Stjórn nemendaráðsins brá sér einnig til Kaupmannahafnar þar sem stjórnarmeðlimir tóku þátt í verkefninu Nemendalýðræði og félagsleg sjálfbærni með nemendaráðum tveggja danskra skóla. Var það verkefni styrkt af Erasmus+ áætluninni. Lokahnykkurinn á félagsstarfinu á haustönn var hið árlega jólakvöld þar sem nemendur og starfsfólk mættu í sínu fínasta pússi til veglegrar matarveislu og skemmtidagskrár í sal skólans. Nemendaráð sá um allan undirbúning og hafði veg og vanda af þeirri skemmtun.
Nemendaráð fundar vikulega og er þegar farið að leggja drög að skemmtilegum viðburðum á vorönninni. Ekki má svo gleyma því að nemendaráð fundar reglulega með skólameistara og kemur þar á framfæri hugmyndum nemenda til að bæta skólastarfið og á fulltrúa bæði í skólaráði og skólanefnd svo tryggt sé að sjónarmið nemenda nái eyrum þeirra sem stýra skútunni.