Lokaverkefni um sköpunarferlið

Anna Kristín Semey Bjarnadóttir rannsakaði sköpunarferlið í lokaverkefni sínu á vorönninni. Í kynningu sagði hún að gerð málverks krefðist meiri hugmyndavinnu en hún hafi haldið. Hún fór til Svíþjóðar og Bandaríkjanna í leit að innblæstri. Henni fannst mikið til þeirrar myndlistar koma sem hún sá í Svíþjóð en sagði að í Bandaríkjunum væri meiri fókus á nútímalist sem hún hefði minni áhuga á. Hún hafi spurt sig hverju hún vildi koma fram í lokaverkefni og þetta hafi endað sem þróunarferli sitt sem listamanns. Á endanum hafi hún samið blogg þar sem markmiðið komi fram og sýnt sé hvernig hún upplifi gerð verkanna. Hún hafi alltaf skissað mikið en athyglisbrestur sinn hafi gert að verkum að hún hafi sjaldnast lokið við það sem hún var að gera. En persónuleg þróun sem hún fór í gegn um í lokaverkefninu hafi hjálpað henni að læra öguð vinnubrögð, fylgja hjartanu og ljúka við verkin. Leiðbeinandi Önnu Kristínar var Bergþór Morthens, myndlistarkennari og málari.