Líflegar umræður á skólafundi

Skólafundur mynd GK
Skólafundur mynd GK

Í síðustu viku var okkar árlegi skólafundur þar sem nemendur velta fyrir sér ýmsum málum sem snerta skólastarfið og hafa tækifæri til að hafa áhrif á það. Var nemendum skipt upp í nokkra hópa þar sem valdir voru stjórnendur til að stýra umræðum og ritarar til að skrá niðurstöður hvers hóps. Umræðuefnin voru ákveðin af sjálfsmatsteymi skólans eftir samráð við nemendafélag skólans, kennara og starfsfólk. Að þessu sinni var rætt um nýtt fyrirkomulag sem tekið var upp í skólanum í haust þar sem hver nemandi hefur sína starfsstöð, félagslíf nemenda og hvaða alþjóðadaga UNESCO á að halda upp á í vetur.

Nemendur tóku þessu hlutverki alvarlega og líflegar umræður sköpuðust í öllum hópum. Skiptar skoðanir voru á nýja fyrirkomulaginu, sumum finnst það hjálpa við skipulag, t.d. með vikuáætlunum og að hafa sérstaka starfsstöð út af fyrir sig, aðrir sakna sveigjanleikans úr gamla kerfinu en allir voru sammála um að aðgengi að kennurum væri betra en áður. Nemendafélagið óskaði eftir hugmyndum til að efla félagslífið og fékk ýmsar uppástungur eins og t.d. bíó-, spila og tölvuleikjakvöld, íþróttadag, sundlaugarpartý og fleira skemmtilegt sem verður tekið til skoðunar. Hvað alþjóðadagana varðar stóðu Friðardagurinn og Dagur gegn kynbundnu ofbeldi upp úr á haustönn en Hamingjudagurinn og Móðurmálsdagurinn á vorönninni. Komu nemendur með ýmsar hugmyndir um hvernig vinna mætti með þema þeirra daga.