Líf og fjör í Lundúnum

Skoðunarferð í Royal Albert Hall
Skoðunarferð í Royal Albert Hall

Nemendur í skapandi tónlist hafa æft með félögum sínum í London undanfarna daga en hópur frá skólanum er nú í námsferð í heimsborginni. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem okkar menn hafa unnið með þessu fólki því um hríð hefur verið samvinna gegnum netið við nemendur í London College of Music, tónlistardeildinni innan University of West London.

Það má því segja að sjóndeildarhringur ungra tónlistarmanna í Fjallabyggð hafi víkkað verulega og tengslanetið nær töluvert lengra en ella. Konan á bak við þetta samstarf er Katrín Ýr Óskarsdóttir tónlistarkennari skólans en hún kennir við báða skólana auk þess að vera starfandi tónlistarmaður í London.

Á föstudagskvöld verða svo haldnir tónleikar á krá í nágrenni við skólann þar sem sönghópur MTR kemur einnig fram. Nemendur London College of Music í hljóðtækni sjá um að hljóðblanda á staðnum svo að þetta verður alvöru gigg með öllu tilheyrandi. En það er líka búið að skoða og upplifa margt í ferðinni. Í gærkvöld fór hópurinn t.d. á Mamma Mia söngleikinn og í morgun heimsóttu þau Royal Albert Hall.

Laugardeginum verður svo varið í hljóðveri London College of Music þar sem okkar menn sameinast nemendum ytra í námskeiði í hljóðupptökum. Þeir verða innilokaðir í stúdíóinu frá 9 til 18 svo þeir verða vafalaust frelsinu fegnir á sunnudaginn þegar hópurinn flýgur heim til Íslands.

Smellið hér til að skoða myndir sem nemendur og kennarar hafa tekið í ferðinni.