Kynnisferð í menninguna

Menningarferð mynd Steinunn Ósk
Menningarferð mynd Steinunn Ósk

Nemendur listabrauta í MTR fóru í menningarferð til Akureyrar gær og komu við í Kaktus, Mjólkurbúðinni og Listasafninu. Tvisvar var búið að fresta ferðinni vegna veðurs og ófærðar en þriðja tilraun tókst vel og á annan tug nemenda og kennara tók þátt í ferðinni. Karólína Baldvinsdóttir, listgreinakennari í MTR er starfandi myndlistarkona og ein af listahópnum Kaktusi svo það voru hæg heimatökin að kynna þá starfsemi fyrir nemendum. Svo vill til Karólína opnar sýningu í Kaktus á föstudag þannig að nemendur fengu að sjá og kynnast málverkasýningu á lokametrunum, rétt áður en hún er hengd upp á sýningarveggina. Í Kaktus sagði Freyja Reynisdóttir myndlistarkona einnig frá sínum verkum en hún verður með námskeið fyrir nemendur MTR í miðannarvikunni. Eftir stutt stopp í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins á Akureyri, var haldið í Listasafnið. Þar tók Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi á móti hópnum og fræddi og leiðsagði um hinar mörgu og fjölbreyttu sýningar listasafnsins. Það er mjög mikilvægt fyrir nemendur í listgreinum að geta farið í ferðir sem þessar, séð vinnustofur listamanna, skoðað sýningar og fengið góða leiðsögn eins og í boði er á Listasafninu á Akureyri. Myndir