Jonna heimsækir skólann í mánuði myndlistar

Jonna og Kristinn Gígjar nemandi í MTR bregða á leik með tvö af verkunum sem hún hafði meðferðis í s…
Jonna og Kristinn Gígjar nemandi í MTR bregða á leik með tvö af verkunum sem hún hafði meðferðis í skólann. Ljósm. SMH.

Október er mánuður myndlistar og í dag kom Jónborg Sigurðardóttir - Jonna listakona í skólann til að kynna listina sína fyrir nemendum. Jonna vinnur í margvísleg efni en oftast er hún að endurnýta efni sem annars færu á haugana. Verkin hennar eru feminísk og hún er óhrædd að láta skoðanir sínar og tilfinningar í ljós í verkunum. Hún er því ekki einungis skapandi listakona heldur einnig samfélagsrýnir og skapar listaverk úr því sem aðrir fleygja.

Mánuður myndlistar er vettvangur til að kynna starf myndlistarmanna fyrir almenningi, gera fagið aðgengilegra öllum ásamt því að auka umræðu um myndlist og myndlistarmenn. Það er mjög gagnlegt og lærdómsríkt fyrir nemendur að fá að kynnast starfandi listamönnum og ekki síst jafn frjórri og skapandi listakonu eins og Jonnu.