Íþróttir, hreyfing og útivist

Í þessum miðannaráfanga kynnast nemendur meðal annars fjölbreyttum íþróttagreinum sem þeir þekktu ekki áður. Markmiðið er að hver og einn geti fundið „sína íþrótt“ og stundað hana til að lifa heilsusamlegu lífi. Kynningarnar eru bæði bóklegar og verklegar. Leiðbeinandi er Örn Elí Gunnlaugsson, útskrifaður af íþróttabraut MTR fyrir nokkrum árum. Örn Elí er í þriggja vikna starfsnámi við skólann en hann útskrifast sem íþróttafræðingur frá Háskóla Íslands í vor.

Meðal nýrra íþrótta sem nemendur hafa kynnst í áfanganum eru vatnspóló, blandaðar bardagalistir og leikir með skotboltaívafi, sem nemendur voru mjög ánægðir með. Í vatnspóló troða menn marvaðann í sundlaug, mega ekki snerta bakka og leika með bolta. Þetta er erfitt og sumir fengu strengi eftir vatnspólóæfinguna. Varðandi blandaðar bardagalistir byggði kennslan á æfingum úr júdó og glímu sem reyna á allan líkamann. Þær geta nýst til sjálfsvarnar. Þá kynntust nemendur æfingum sem byggja á fimleikum og bardagaíþróttum. Þar er áhersla á styrk og liðleika. Þessar æfingar fóru misvel í nemendur enda henta þær ekki öllum.

Auk fyrrnefndra íþrótta hefur hópurinn rennt sér á svigskíðum og brettum, skroppið á gönguskíði og rennt sér á skautum. Einnig klifrað á veggnum góða í Víkurröst á Dalvík og farið í krossfit og spinning.

Lokaverkefnið er gerð myndbands sem er hugsað sem kynningarefni fyrir MTR. Nemendur hafa tekið upp æfingar sínar og klippa saman nokkur myndskeið sem gefa hugmynd um fjölbreytileikann sem einkennt hefur iðkun þeirra í vikunni. Myndir  Myndband