Íslenskan höfð í hávegum

Kolbrún, Margrét og Þórarinn
Kolbrún, Margrét og Þórarinn

Í MTR er íslenskunni gert hátt undir höfði og í boði eru fjölmargir íslenskuáfangar. Að sjálfsögðu er hugað að menningararfinum og fornsögurnar og Eddukvæðin fá sinn sess en einnig bókmenntir 20. aldarinnar og rapptextar nútímans.

Íslenskukennarar skólans eru Margrét L. Laxdal og Kolbrún Halldórsdóttir og þær eru duglegar að bjóða upp á ýmsar nýjungar, bæði varðandi skapandi skil á verkefnum og nýstárlegum efnistökum. Þannig eru þær ekkert óvanar að fá myndband, hlaðvarp, málverk eða tónsmíð sem úrlausn verkefna enda eru skapandi skil í mörgum áföngum. Efnistökin eru einnig margbreytileg. Nemendur hafa fengist við að rannsaka íslenskt nútímamál eins og það birtist í rapptextum og kannað mismunandi framburð eftir landshlutum. Á þessari önn eru nemendur að lesa og greina hryllingsbókmenntir og á næstu önn er boðið upp á áfanga í skapandi skrifum með áherslu á að miðla efninu á internetið á myndrænan hátt svo það verði aðgengilegt ungum áhorfendum og lesendum. Þannig er verið að færa íslenskuna inn á nýjar brautir sem eru í takt við tímann.

Á næstu önn er einnig í boði áfangi í yndislestri þar sem nemendur lesa fimm bækur auk fræðigreina og bókmenntagagnrýni sem tengjast bókunum. Halda svo lestrardagbók þar sem þau skýra frá lestrarupplifun sinni og velta vöngum yfir sögunum sem þau lesa.

Ekki má gleyma þriðja íslenskukennara skólans, Þórarni Hannessyni, en hann hefur kennt ýmsa grunnáfanga og spennandi valáfanga. Má þar t.d. nefna áfanga sem snýst um glæpasögur, annan um goðsögur og fantasíur og síðast en ekki sist áfanga um ljóðagerð, en Þórarinn er öflugur talsmaður yrkinga og leiks með málið. Hann hefur stýrt ljóðahátíðinni Haustglæðum í Fjallabyggð í tæpa tvo áratugi og er stofnandi og forstöðumaður Ljóðasetur Íslands á Siglufirði .

Það má því með sanni segja að við í MTR skoðum flesta kima íslenskunnar í fjölbreyttu áfangaframboði skólans.