Hálf fimmtánda milljón króna í styrk

Nemendur MTR ásamt lettneskum, grískum og tékkneskum félögum sínum í Erasmus+ verkefni í útlöndum.  …
Nemendur MTR ásamt lettneskum, grískum og tékkneskum félögum sínum í Erasmus+ verkefni í útlöndum. Ljósmynd: Ronja Helgadóttir.

Erasmus+ hefur úthlutað Menntaskólanum á Tröllaskaga 14,5 milljónum króna til námsferða nemenda og endurmenntunar kennara. Styrknum verður varið á næstu fimmtán mánuðum. Þetta er fjórði hæsti styrkurinn sem Erasmus+ úthlutar að þessu sinni til náms og þjálfunar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Tvær námsferðir nemenda eru þegar ráðgerðar. Annarsvegar í áfanga í sirkuslistum sem boðinn verður í miðannarviku á næstu haustönn. Kennslan er í Brussel í Belgíu og verður í fimm daga. Hins vegar er áfangi sem fjallar um útivist og sjálfbærni og verður kenndur á vesturströnd Jótlands.

Tvö endurmenntunarnámskeið fyrir kennara eru í pípunum. Í Belgíu eru námskeið sem snúast um að tengja menningu og listir sem víðast inn í skólastarfið og í Finnlandi eru námskeið sem fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjálfbærni í skólastarfi.

Styrkur sem þessi er mjög mikilvægur fyrir skólastarfið. Það gerir skólanum kleift að bjóða upp á spennandi áfanga sem brjóta upp hefðbundið nám og ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi endurmenntunar kennara í heimi sem breytist hraðar en auga á festir.