Guðni Brynjólfur landslagsarkitekt

Guðni Brynjólfur Ásgeirsson er frá Siglufirði. Hann útskrifaðist af náttúrufræðibraut MTR í desember 2012. Í framhaldi af því stundaði hann nám í landslagsarkitektúr við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Í dag býr Guðni Brynjólfur í Osló og starfar þar sem landslagsarkitekt hjá arkitektastofunni Lala Töyen. Við spurðum Guðna hvernig námið í MTR hafi undirbúið hann fyrir háskólanám og hvað sé eftirminnilegast úr skólagöngunni.

Í MTR hlaut ég ágætan grunn sem hjálpaði mér að standa á eigin fótum þegar þannig bar undir. Þegar ég hóf nám við skólann var ekki hægt að halda úti kennslutímum í ákveðnum náttúrufræðifögum sem ég varð að taka á námsvegferð minni.
Þá var ekki um annað að ræða en að sækja fjarnám og gera sitt besta í því að læra námsefni í fjarkennslu sem var oft á tíðum mjög krefjandi, sú vinna skilaði sér í betri sjálfstjórn.

Ég fékk góða hjálp frá kennurum skólans og kann ég þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn. Stærðfræðitímar hjá Óliver Hilmarssyni, fyrrum kennara skólans, gögnuðust sérstaklega vel. Eftirminnilegast er sérstaklega góður og hvetjandi félagsskapur í skólanum sem og
hjálpleg nærvera við kennara skólans.