Grunnskólanemar yrkja í MTR

Nemendur yrkja mynd GK
Nemendur yrkja mynd GK

Ljóðahátíðin Haustglæður hefur farið fram í Fjallabyggð undanfarin 12 ár. Sérkenni hátíðarinnar er hve virkan þátt börn og ungmenni taka þátt í henni. Fastur liður í hátíðinni er ljóðasamkeppni milli nemenda í 8. – 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Hefur sá háttur verið hafður á undanfarin ár að þátttakendur nota listaverk sem kveikjur að ljóðum.

Í MTR er jafnan mikið af listaverkum á veggjum og í fyrra óskuðu skipuleggjendur hátíðarinnar, Umf Glói og Ljóðasetur Íslands, eftir samstarfi við skólann sem felur í sér að þessi liður hennar fari fram þar. Var því vel tekið og tókst vel til í fyrra. Á dögunum heimsóttu nemendur skólann í annað sinn í þessum tilgangi. Til að veita nemendum innblástur var sett upp sýning listaverka eftir listafólk úr Fjallabyggð. Þar áttu verk fjórir einstaklingar sem útnefndir hafa verið bæjarlistamenn Fjallabyggðar: Berþór Morthens, Guðrún Þórisdóttir, Arnfinna Björnsdóttir og nýjasti bæjarlistamaðurinn Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir og auk þeirra Kristinn G. Jóhannsson og Kolbrún Símonardóttir. En Kolbrún var listamaður nóvembermánaðar í skólanum og þar voru til sýnis glæsileg veggteppi úr hennar smiðju.

Kveikjurnar virkuðu vel og fjöldi góðra ljóða varð til hjá nemendum. Dómnefndar bíður nú það erfiða, en skemmtilega verkefni, að velja þau fjögur ljóð sem þykja best.