Góð heimsókn

Hópmynd mynd LS
Hópmynd mynd LS

Árgangurinn frá 1966 heimsótti gamla skólann sinn, Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar, á laugardaginn var. Hópurinn rifjaði upp gamlar minningar um ýmsa atburði sem gerðust í skólalífinu á fyrri hluta níunda áratugarins. Lára Stefánsdóttir, skólameistari tók á móti hópum og gerði grein fyrir starfsemi Menntaskólans, námsframboði og skipulagi og þótti gestum fróðlegt að kynnast því enda mikið breyst í skólastarfi síðan þeir voru á aldur við nemendur MTR. Móttakan fór fram í nýja salnum, Hrafnavogum og þótti gömlu nemendunum mikið til um þessa viðbót við skólahúsið. Strax er komið í ljós hve mikla og margvíslega möguleika nýi salurinn veitir nemendum og starfsmönnum auk þess að gefa tækifæri til að taka vel á móti stærri hópum í björtum og rúmgóðum húsakynnum.