Á haustönn hafa þrír nemendur setið lokaverkefnisáfanga á myndlistarsviði. Í honum er byggt á þeim grunni sem nemendur hafi aflað sér í teikningu og meðferð olíulita í fyrri áföngum. Mikil áhersla er lögð á persónulega túlkun og að verkið skuli uppfylla kröfur um áræðni, ímyndunarafl og listræna framsetningu. Nemendur velja sér verkefni eftir áhugasviði hvers og eins og vinna eigin rannsóknar og sköpunarferlisvinnu undir handleiðslu kennara.
Fjarneminn Áróra Hlín Helgadóttir ákvað að lokaverkefni sitt ætti að snúast um fegurð íslensku náttúrunnar. Niðurstaðan var að mála sex vegleg olíumálverk í rómantískum landslags stíl af uppáhalds stöðum hennar á landinu. Verkin eru 80x100cm og verða til sýnis á haustsýningu skólans sem opnar á laugardaginn.
Kristín Magnea Sigurjónsdóttir sinnir námi sínu frá Gran Canaria þar sem hún er búsett. Hún fékk þá hugmynd að nýta áfangann til að mála myndir sem hentuðu á tóma veggi í húsi sem hún og maður hennar hafa nýverið keypt á eyjunni. Nefnir hún lokaverkefnið Veggir án minninga. Í stað þess að senda verkin til sýningar á haustsýningu skólans tók hún upp myndband þar sem hún segir frá lokaverkefninu og sýnir frá myndlistarsýningu sem hún bauð nokkrum vinum til í húsi sínu. Fjallar hún einnig um kosti þess að stunda fjarnám við MTR. Myndbandið er neðst í fréttinni.
Síðast en ekki síst er það lokaverkefni sem staðneminn Hlynur Snær Harðarson hefur unnið að á önninni. Gaman hefur verið að fylgjast með þróun verksins allt frá því að striginn var strekktur á rammann og Hlynur safnaði hugmyndum frá nemendum og kennurum um hvað ætti að felast í verkinu. Sjá svo túlkun þeirra hugmynda taka á sig mynd á striganum, fyrst með blýanti og síðar penslum og olíumálningu, eins og sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni. Verður verkið í öndvegi á haustsýningunni. Myndir