Gjöfult samstarf við skóla á Spáni

Á dögunum dvaldi Ida Semey, kennari við MTR, í framhaldsskólanum IES Andreu Sempere í Alcoi á Spáni í nokkra daga og fylgdist þar með skólastarfi og kennslu. Skólarnir tveir, MTR og IES Andreu Sempere, eiga margt sameiginlegt eru t.d. báðir Erasmus og UNESCO skólar og var dvöl Idu styrkt af Erasmus+ áætluninni. Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem skólarnir eiga í samstarfi því vorið 2023 heimsótti starfsfólk MTR spænska skólann í námsferð sinni til Alicante og von er á nokkrum nemendum frá IES Andreu Sempere í heimsókn til Ólafsfjarðar í næsta mánuði. Munu þeir kynnast skólastarfinu í MTR og dvelja hjá nemendum skólans á meðan á heimsókninni stendur. Ida fundaði með þessum nemendum og kennara þeirra og fór yfir dagskrána sem nemendur í umhverfis áfanga MTR hafa útbúið vegna heimsóknarinnar. Áherslan er á að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig samstarfsverkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni. Auk þess munu nemendur kynna sér hvaða menningar- og náttúrustaðir í löndunum tveimur eru á Heimsminjaskrá UNESCO.

Ida átti fundi með skólastjóra, kennurum og nemendum og kynntist menntastefnu og skólabrag í IES Andreu Sempere og kynnti sér sérstaklega hvernig skólinn vinnur að ýmsum Evrópuverkefnum. Komst hún að því að vinnulag skólanna er mjög svipað þegar leitað er að verkefnum og samstarfsaðilum í slík verkefni. Einnig flétta skólarnir UNESCO áherslur jafnt inn í erlend verkefni sem daglegt starf. Báðir skólar velja nemendur í erlend verkefni á grundvelli vinnusemi þeirra og áræði og einnig vegur inngilding þungt. IES Andreu Sempere miðlar mjög markvisst starfi sínu á samfélagsmiðlum, sérstaklega það sem tengist UNESCO og Erasmus, gætum við í MTR stundum gert betur í þeim efnum að mati Idu.

Ýmislegt fleira er sammerkt með skólunum. Spænski skólinn er með náttúruna í bakgarðinum, eins og við, og notar hana markvisst í allskonar verkefni. Í nágrenni skólans er verndað nátturusvæði sem myndar lungu fylkisins. Þar má ekki lengur byggja og umgengni um svæðið er stjórnað skynsamlega. Nemendur fara inn á svæðið til að fræðast um dýra- og plöntulíf en þar eru m.a. villisvín, dádýr, refir, fjallageitur, íkornar, hrægammar og aðrar merkilegar fuglategundir, auk skordýra og skriðdýra af ýmsu tagi. Einnig eru þar verndaðar trjátegundir sem má ekki fella. Með markvissu starfi síðustu ár hefur tekist að koma lífríkinu í gott jafnvægi. Reglulega er farið með nemendur skólans um svæðið til að plokka og svo er allt sem safnast vigtað og flokkað. Er það svipað og við gerum hér í MTR á stóra plokkdaginn.

Nemendafjöldi í skólunum er svipaður en munurinn er sá að í spænska skólanum eru engir fjarnemar og því tækifæri til fjölbreyttari verkefna á staðnum. Nemendahópurinn þar er einnig mjög fjölmenningarlegur. Báðir skólar nota tæknina markvisst en hún vegur þyngra í MTR vegna kennsluhátta okkar og sama má segja um heimasmíðað námsefni, þar þurfum við og höfum mun meiri sveigjanleika. Tónlist er mjög ríkjandi í skólanum á Spáni og allir nemendur læra þar á hljóðfæri, hvort sem þeir hafa grunn úr tónlistarskóla eða ekki. Einnig vinna þeir moltu fyrir skógrækt og eru með flóamarkað einu sinni í mánuði. Ágóðinn af honum rennur til góðgerðarstarfsemi sem nemendur velja sjálfir. Myndir