Gamli og nýi tíminn í ljósmyndun

Ljósmynd: SMH
Ljósmynd: SMH

Mikil áhersla er á skapandi starf í MTR. Bæði á það við um fjölbreytt og skapandi verkefnaskil í öllum námsgreinum en einnig á hinar hefðbundnu skapandi greinar eins og myndlist, tónlist og ljósmyndun. Hægt er að ljúka stúdentsprófi af listabraut með áherslu á fyrrnefndar greinar. Í morgun mættu nemendur í fyrsta tíma í grunnáfanga í listljósmyndun. Þar er verið að læra hvernig allir hlutar myndavélarinnar vinna saman og hvað stjórntækin gera svo nemendur geti notað ljósmyndamiðilinn á skapandi hátt. Í morgun fengu nemendur að kíkja á gamla blaðfilmuvél sem virkar nákvæmlega eins og allar aðrar myndavélar en er algjörlega handvirk. Nemendur vinna þó jafnan með nýjustu stafræna tækni svo þarna mættist gamli og nýi tíminn.

Á myndinni er Birna Björk Heimisdóttir að kíkja í gegn um gömlu belgvélina. Hörður Ingi Kristjánsson fylgist með.