Gamithra sigursæl í forritun

Gamithra mynd facebooksíða Háskólans í Reykjavík
Gamithra mynd facebooksíða Háskólans í Reykjavík

Gamithra Marga, fjarnemi í MTR og Bjarni Dagur Thor Kárason frá MR unnu erfiðustu deildina í Forritunarkeppni framhaldsskólanna um nýliðna helgi. Keppnin var haldin í Háskólanum í Reykjavík og kepptu 37 lið í þremur deildum. Gamithra og Bjarni Dagur höfðu nokkra yfirburði í sinni deild með 1109 stig en liðið sem varð í öðru sæti fékk 936 stig. Heimilt var að þrír væru saman í liði en sem fyrr segir voru Gamithra og Bjarni Dagur bara tvö í sínu liðið í Alfa-deildinni.

 

Ákveðið er að Gamithra keppi á Eystrasaltsólympíuleikunum í forritun í lok næsta mánaðar. Líklegt er að hún verði einnig í hópi keppenda á Ólympíuleikunum í forritun í Aserbaídsjan síðar á árinu. Á síðasta ári tóku hún og Bjarni Dagur þátt í Eystrasaltskeppninni í upplýsingatækni sem haldin var í Stokkhólmi. Þau fóru líka til Japans og kepptu á Heimsleikunum í forritun í haust. Keppnin fór fram í Tsukuba vísindaborginni rétt hjá Tokíó höfuðborg Japans. Það eru einstaklingar en ekki lið sem eigast við í þessum alþjóðlegu keppnum og segir Gamithra að þátttakan sé mikil reynsla og stórkostleg upplifun.

 

Gamithra Marga er frá Eistlandi. Hún flutti til Íslands fyrir rúmum tveimur árum en áður hafði hún lært talsvert í íslensku á netinu og hefur nú náð prýðilegum tökum á málinu. Fjölskylda hennar býr í Tallin, höfuðborg Eistlands, en áður stundaði hún nám í háskólaborginni Tartu.